10.9.2015 | 09:18
Haraldur Ingi Haraldsson með vinnustofusýningu í Sal Myndlistarfélagsins
Laugardaginn 19. september kl.14 opnar Haraldur Ingi Haraldsson vinnustofusýningu í Sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri undir nafninu Codhead Xl. Sýningin stendur til 27. september.
"Ég hef verið að vinna að Codhead hugmyndinni síðan um 2000 og mest í skúlptúr og innsetningum. Á síðunni codhead.net má sjá dæmi um þá vinnu. Þessi sýning er hinsvegar málverkasýning þar sem ég sýni fjölda stór og smá málverka sem eru unnin á árunum 2014 og 15.
Ég kalla sýninguna vinnustofusýningu vegna þess að ég mun vera að vinna að ýmsum verkefnum sem eru í farvatninu í sýningarrýminu á sýningartímanum. Opnunartíminn miðast við það. Þegar skiltið er úti og ljós í gluggunum þá er opið. Frá því snemma á morgnanna og fram á kvöld."
Um sýninguna.
Codhed er heimur þar sem jakkafataklætt fólk með bindi og þorskhaus sinnir margvíslegum viðfangsefnum í umhverfi sem skilgreinir heiminn. Codhead er samstofna orðinu Godhead og á einhvern hátt nánast sama orðið. Þorskdómur og guðdómur.
Þetta er pólitísk list, og fjallar að hluta til um heimspeki rándýrsins, græðgi, eigingirni og miskunnarleysi sem er kjarni nýfrjálshyggjustjórnhátta vesturlanda. Hrunið afhjúpaði inngróna spillingu íslensks samfélags og meðvirkni á ævintýralega háu stigi. Allt þetta dregur kraft úr samfélögum og ógnar framtíð almennings. Þetta er mér ofarlega í huga.
En svo er ég einnig mjög upptekinn af hefðbundnum úrlausnum myndlistar á sviði framsetningar, litameðferðar, myndbyggingar og annarrar tækni. Ég er mjög meðvitaður um að myndlist er að miklum hluta til sjónræn og tilfinningaleg upplifun sem gefur ekki rými til predikunar eða framsetningu algildra sanninda.
Engin borðskort eru send út en allir hjartanlega velkomnir.
https://www.facebook.com/events/1654633784781547
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.