24.8.2015 | 15:51
Móðir
Móðir er samsýning tveggja ljósmyndara, Daníels Starrasonar og Magnúsar Andersen á Akureyrarvöku 2015, helgina 29-30. ágúst. Sýningin varð til í kringum þema Akureyrarvöku í ár, sem er Dóttir, móðir, amma en á sýningunni fjalla Daníel og Magnús í máli og myndum um líf mæðra og barna þeirra á tveimur stöðum; Akureyri og London. Mæðurnar koma úr ýmsum áttum, eru á öllum aldri og búa við mismunandi aðstæður. Ein móðirin er til að mynda prestur, önnur er ljósmyndari sem tekur barn sitt með sér hvert sem hún fer og enn önnur eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var 48 ára gömul.
Ljósmyndasýningin Móðir er önnur sýningin sem Daníel og Magnús halda í sameiningu, en sýningin Íslenskt tónlistarfólk var sýnd í Populus Tremula og á Kex Hostel árið 2013. Þeir hafa auk þess haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum saman og í sitt hvoru lagi.
Daníel er fæddur á Húsavík árið 1987, hann eignaðist sína fyrstu myndavél á barnsaldri en áhuginn kviknaði að mestu á meðan hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri. Hann nam við Medieskolerne í Danmörku á árunum 2011-2015 og starfar nú sem ljósmyndari á Akureyri. Daníel hefur verið iðinn að skrásetja íslenskt tónlistarlíf, bæði með tónleikaljósmyndun og portrettmyndum af íslensku tónlistarfólki.
Magnús fæddist í Noregi árið 1990 og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann hefur síðan úr barnæsku haft mikinn áhuga á ljósmyndun. Eftir nám við Menntaskólann í Hamrahlíð flutti hann til Danmerkur og lærði ljósmyndun við Medieskolerne. Han býr nú í London og vinnur sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og aðstoðarmaður. Þess á milli myndar hann sín eigin verkefni og finnst skemmtilegast að taka portrettmyndir af ýmsum áhugaverðum einstaklingum.
Sýningin Móðir verður haldin á Ráðhústorgi 7 á Akureyrarvöku og verður opin laugardaginn 29. ágúst og sunnudaginn 30. ágúst frá kl. 14 til kl. 17.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.