12.5.2015 | 18:31
Guðmundur Ármann Sigurjónsson sýnir í Mjólkurbúðinni
Guðmundur Ármann Sigurjónsson opnar myndlistarsýninguna NÁTTÚRUSÝN í Mjólkurbúðinni á Akureyri,16. maí kl 15.00
Náttúrusýn - Þar sem fjallið teigir kollinn mót himni
Myndefnið á sýningunni er sótt í umhverfið við Eyjafjörð.
Vatnslitamyndirnar eru málaðar úti undir berum himni, oftast á góðviðrisdögum en stundum á mörkum þess mögulega fyrir vatnsliti. Viðvangsefnið er náttúran eins og hún birtist í mismunandi ljósi dagsins. Leitast er við að færa á vatnslitaörkina myndefnið eins og það birtist sjónum horfandans. Þannig verða myndirnar jafn náttúrutrúverðugar og efniviðurinn, og hið eina sem setur þeim hugsanlegar skorður er færni þess sem heldur á penslinum. Að sitja úti undir berum himni og skoða umhverfið með öllum skilningarvitunum er áskorun sem ekki verður notið með öðrum hætti. Meðvitundin um verkefnið að mála mynd skerpir athyglina og skynjunina til fullnustu og svo að töfrum er líkast. Að sjá myndina framkallast skref fyrir skref á pappírsörkina er augnarbliks fögnuður, sérstaklega þegar vel tekst til.
Olíumálverkin eru unnin á vinnustofunni með vatnslitamyndirnar í bakgrunni. Litasamsetning og formspil náttúrunnar er fært í nokkuð strangari myndbyggingu og brugðið er á leik. Myndlistin býr yfir samræmi sem er hliðstætt náttúrunni, á Cézanne að hafa sagt við kollega sinn þegar hann var að útskýra hvað hann væri að fást við þegar hann leyfði sér að hnika réttri fjarvídd og myndefnið var einfaldað og fært undir grunnformin. Í þeim anda eru málverkin unnin og jafnvel gengið enn lengra í að brjóta upp form náttúrunnar.
Töfrar náttúrusýnar felast ekki síður í að mála á vinnustofunni og finnast mynd sem glímt er við lokið þegar hún ber í sér minni sumarsins.
Ríkjandi litaskali er bláir tónar í bland við dempaða jarðliti.
Sýningin opnar laugardaginn 16. maí kl 16.00, henni lýkur 25. maí kl 18.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.