Ragnar Hólm sýnir í Mjólkurbúðinni

11083685_1547757828822528_8415681525079383864_n

Á skírdag kl. 14 opnar Ragnar Hólm sýningu á nýjum vatnslitamynd og málverkum í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.

Þetta er níunda einkasýning Ragnars sem hefur stigið fjörugan dans við listagyðjuna á síðustu árum en fyrstu sýningu sína hélt hann vorið 2010. Við opnunina á skírdag í Mjólkurbúðinni ætla Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein að leika létta tónlist af fingrum fram.

Á sýningunni er að finna röð vatnslitamynda af þekktum húsum í bænum en einnig landslagsmyndir, myndir tengdar fluguveiði og myndir af fólki. Titill sýningarinnar vísar annars vegar til þess að vetur breytist í vor en hins vegar til þess að á þessum árstíma er allra veðra von, stundum nái vetur konungur aftur tímabundið yfirhöndinni á vorin.

Ragnar Hólm hefur sótt námskeið í myndlist en mest munar um einkakennslu hjá Guðmundi Ármann Sigurjónssyni myndlistarmanni sem staðið hefur nær óslitið síðustu sex árin. Ragnar hefur lengst af aðallega sýnt vatnslitamyndir en á síðustu tveimur sýningum hafa stór og smá olíumálverk skotið upp kollinum og að þessu sinni verða akrýlmálverk einnig til sýnis.

Dagsdaglega starfar Ragnar Hólm Ragnarsson á Akureyrarstofu sem verkefnastjóri upplýsinga– og kynningarmála fyrir Akureyrarbæ. Hann hefur verið virkur í félagsmálum fluguveiðimanna, verið formaður fluguveiðifélagsins Ármanna, Landssambands stangaveiðifélaga og Stangaveiðifélags Akureyrar. Ragnar skrifar reglulega um veiðiskap í blöð og tímarit og er annar ritstjóra veftímaritsins Flugufrétta. Í tómstundum skrifar hann, veiðir og málar.

Sýningin í Mjólkurbúðinni verður opin yfir páskana. Opnun verður á skírdag og sýningunni lýkur annan í páskum. Opið verður alla dagana frá kl. 14–17. Allir velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Hólm í síma 867 1000.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband