30.3.2015 | 12:03
Þórarinn Blöndal sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Föstudaginn 3. apríl klukkan 15:00 opnar Þórarinn Blöndal myndlistarmaður sýninguna Ferðbúinn í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin verður opin laugardag og mánudag um páskahelgina kl. 14.00 17.00 en stendur til 10. maí.
Fyrir réttu ári sýndi Þórarinn í 002 gallerí í Hafnarfirði og má segja að sú sýning hafi verið einskonar vegvísir að þeim leiðangri sem er nú hafinn. Í fyrsta áfanga er haldið að Alþýðuhúsinu á Siglufirði og þar verður tilgangur ferðarinnar endurmetinn.
Ferðin er undirbúin í þaula og eru þó furðu lítil drög að leiðum. Kveikjan er gamalkunn árátta og þrá eftir hinu óvænta. Er farangur er um margt kunnuglegur, mikill að umfangi og margþvældur.
Áningarstaðir eru ekki allir kunnir en munu varða leiðina. Hver staður fæðir af sér nýja ferð og gamlar maníur ágerast, gaumgæfi eftir frummyndum, leita eftir slóðum og myndvísum sem breyta för minni.
Staðir setjast að í skúmaskoti Pallalangurs og bíða færis.
Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 1966. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Rotterdam, Hollandi. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum bæði heima og erlendis.
Hann var meðal stofnenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri en þar er rekin listamiðstöð í gömlu síldarverksmiðjunni. Þar eru skipulagðar myndlistarsýningar og ásamt fjölbreyttri dagskrá viðburða.
Nánari upplýsingar um Þórarinn og verk hans er að finna á heimasíðunni thorarinnblondal.com
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.