16.3.2015 | 09:28
María Rut Dýrfjörð með Þriðjudagsfyrirlesturinn: Ferilskrá hönnuðar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi
Þriðjudaginn 17. mars kl. 17 mun grafíski hönnuðurinn María Rut Dýrfjörð halda fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Ferilskrá hönnuðar. Í fyrirlestrinum mun hún fjalla um þá ákvörðun að gerast grafískur hönnuður og það nám sem hún á að baki. Einnig mun María Rut stikla á stóru um þau verkefni sem hún hefur unnið og fjalla sérstaklega um útskriftaverkefnið frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Að auki mun hún segja frá reynslu sinni úr atvinnulífinu og rekstri eigin vinnustofu.
María Rut Dýrfjörð útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2013. Auk þess er hún með diplómapróf í alþjóðlegri markaðsfræði með áherslu á hönnun frá TEKO í Danmörku, stúdentspróf af félagsfræðibraut Menntaskólans á Akureyri og af listhönnunarbraut Fjölbrautarskólans í Garðabæ. María rekur vinnustofu í Flóru á Akureyri þar sem hún starfar sem grafískur hönnuður ásamt því að sinna ýmsum persónulegum verkefnum en er sem stendur í fæðingarorlofi.
Þetta er níundi Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Tveir síðustu fyrirlesarar vetrarins eru Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.
https://www.facebook.com/events/414270212068620
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.