Laugardaginn 7. mars kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi yfirlitssýning á verkum Iðunnar Ágústsdóttur. Tilefni sýningarinnar er 75 ára afmæli listakonunnar sem er fædd og uppalin á Akureyri.
Iðunn hóf myndlistarferil sinn 1977 en fyrsta einkasýning hennar var haldin 1979 í Gallerí Háhól. Hún var einn meðlima Myndhópsins sem stofnaður var 1979 og var meðal annars formaður hans og gjaldkeri um tíma. Iðunn vann aðallega með olíuliti og pastelkrít í verkum sínum. Hennar helstu viðfangsefni á ferlinum eru landslagið, náttúran, fólk og hið dulræna. Iðunn hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Flest verka hennar eru í einkaeigu en einnig í eigu ýmissa fyrirtækja og stofnana hér heima og erlendis. Yfirlitssýningin er sú fyrsta sem haldin er á verkum Iðunnar en á sýningunni verður lögð áhersla á olíu- og krítarverk.
Sýningarstjóri er sonur Iðunnar, Eiríkur Arnar Magnússon myndlistarmaður, en hann opnar sama dag kl. 16 sýningu á eigin verkum í Mjólkurbúðinni í Listagilinu. Sunnudaginn 8. mars lýkur svo yfirlitssýningu á verkum móður Iðunnar, Elísabetar Geirmundsdóttur, Listakonan í Fjörunni, en sú sýning hefur staðið yfir í Listasafninu frá 10. janúar. Um helgina má því sjá á sýningum í Listagilinu verk þriggja ættliða. Í tilefni af síðustu sýningarhelginni verður boðið til söngveislu í austursal Listasafnsins kl. 14 laugardaginn 7. mars. Nemendur Tónlistarskólans á Akureyri og Kór Akureyrarkirkju munu flytja söngdagskrá með lögum og ljóðum Elísabetar. Aðgangur er ókeypis.
Samtímis opnun Iðunnar í Listasafninu, Ketilhúsi fer fram lokunarteiti sýningar Arnars Ómarssonar, MSSS, í vestursalnum.
Yfirlitssýning Iðunnar Ágústsdóttur stendur til 19. apríl og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.
https://www.facebook.com/events/407449222761207
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.