13.2.2015 | 19:54
Afmæliskaffi í Listasafninu á Akureyri
Mánudaginn 16. febrúar heldur Listasafnið á Akureyri upp á 100 ára fæðingarafmæli Elísabetar Geirmundsdóttur, listakonunnar í Fjörunni, en þar stendur nú yfirlitssýning á verkum hennar. Ásgrímur Ágústsson, sonur Elísabetar, mun segja frá nokkrum verkum á sýningunni og hefst leiðsögnin kl. 15. Nýja kaffibrennslan býður upp á kaffi og Bakaríið við brúna upp á bollur í tilefni dagsins kl. 15-17. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
Elísabet Geirmundsdóttir var fjölhæf alþýðulistakona sem ef til vill er þekktust fyrir höggmyndir sínar þó hún gerði einnig málverk, teikningar, myndskreytti bækur, hannaði hús og merki og samdi ljóð og lög. Það er afar viðeigandi að á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi skuli vera sett upp yfirlitssýning á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur. Sýningin er unnin í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri og fjölskyldu Elísabetar.
Í tengslum við sýninguna var í janúar efnt til smiðju fyrir börn og fullorðna við gerð snjóskúlptúra. Einnig hefur öllum leikskólabörnum á Akureyri verið boðið í sérstaka heimsókn á Listasafnið til að sjá sýninguna og vinna myndverk út frá henni sem tengjast fjörunni. Sýningin stendur til 8. mars en laugardaginn 7. mars kl. 14 mun Kór Akureyrarkirkju og nemendur úr Tónlistarskólanum flytja söngdagskrá með lögum og ljóðum eftir Elísabetu í austursal Listasafnsins.
Opnunartími Listasafnsins á afmælisdaginn, mánudaginn 16. febrúar, er kl. 12-17.
https://www.facebook.com/listasafnid.akureyri
https://twitter.com/AkureyriArt
http://instagram.com/listak.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.