19.11.2014 | 22:25
Ívar Freyr Kárason opnar sýninguna Loftskip í Geimdósinni
Nú á laugardaginn 22. nóvember kl. 14, stígur Ívar Freyr Kárason í Geimdósina opnar sýninguna Loftskip.
Sýningin er unnin við samnefnt ljóð eftir Heklu Björt, með spraypaint tækni sem Ívar hefur þróað með sér um nokkurt skeið.
Ívar er á lokaári við grafíska hönnun í Myndlistaskólanum á Akureyri, en ver einnig tímanum á vinnustofu sinni Samlaginu, ásamt galvöskum hópi. Þar hefur hann velt mikið fyrir sér hugtakinu "ljót list", og setti sér það að hálfgerðu markmiði. Hér er áhugavert viðtal við kauða, þar sem hann talar meðal annars um hugmyndirnar sínar að baki ljótrar listar. http://www.felagi.is/is/frettir/frettir/getAllItems/14/listskopunarhatidin-homlulaus
Loftskip
Við vorum lök á loftskipum
strengd á milli mastra
en þöndumst ekki í storminum, eins og stolt segl
aðeins þunnar hræður á vindmiðum
sem varð okkur um megn
Svo flöktandi
með óráði
bárumst við
með bergmáli
á reikulum sporbaugum,
hverfulum glitsaumum
um náttblámans mistur og mána
og dreymdi að verða segl
Við vorum lök í álögum
frá rykföllnum tunglunum
og í húminu við heyrðum þau hvísla:
Undirlægjulök
fá engu að ráða
Undirlægjulök
fá aðeins að ráfa
því lök á loftskipum
þenjast ekki í storminum
og lök verða aldrei segl
og lök á vindmiðum
var allt sem við vorum
og það sem varð okkur um megn
- hekla 2011
Nú er að sjá... tekur Ívar sig til og opnar Dósina með ljótri list? Eða vandasamri fallegri list?
Hver dæmir fyrir sig, og því eru allir velkomnir í Geimdósina á laugardaginn klukkan 14:00 og þiggja list og veigar, ljótar eða fagrar.
one love
GEIMDÓSIN, Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.
https://www.facebook.com/events/377304789099191
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.