Þriðjudaginn 21. október kl. 17 heldur Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar "Myndlist minjar / Minjar Myndlist" fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri undir heitinu "Hugmynd verður sýning".
Síðastliðin tólf ár hefur Íris Ólöf Sigurjónsdóttir verið forstöðumaður byggðasafnsins Hvols á Dalvík. Áður starfaði hún á Árbæjarsafni í Reykjavík.
Fyrir utan almenn safnastörf fæst Íris Ólöf við hönnun á eigin textílum. Hún hefur séð um að hanna allar sýningar byggðasafnsins Hvols , auk þess hefur hún tekið að sér að setja upp sýningar í öðrum rýmum en safnsins. Íris Ólöf er textílmenntuð í Osló og menntuð í textílforvörslu í London
Á sýningunni "Myndlist minjar / Minjar myndlist" í Listasafninu á Akureyri gefur annars vegar að líta muni, markaða af sögu, menningu og andblæ liðins tíma, og hins vegar ný listaverk unnin af ellefu listamönnum sem boðið var að vinna þau út frá munum Byggðasafnsins og menningarsögu Dalvíkurbyggðar.
Myndlistarmennirnir eru á aldrinum 28-70 ára og vinna í ólíka miðla en eiga það sameiginlegt að tengjast Írisi Ólöfu á einn eða annan hátt. Þeir eru Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, Haraldur Jónsson, Magdalena Margrét, Ragnhildur Stefánsdóttir, Sara Jóhanna Vilbergsdóttir, Sari Maarit Cedergren, Svava Björnsdóttir, Victor Ocares, Þór Vigfússon, Þrándur Þórarinsson og Örn Alexander Ámundason.
Listasafn og byggðasafn eiga vissulega ýmislegt sameiginlegt en það er einnig margt sem aðgreinir þau. Á sýningunni er menningararfurinn meðhöndlaður út frá hugmyndum myndlistarmannanna og útkoman er fjölbreytt, spennandi og í einhverjum tilfellum óvænt. Gripum Byggðasafnsins er stillt upp án sögu þeirra eða skýringa; formið eitt stendur eftir.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá fjórði í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Hér eru allir fyrirlestrarnir í tímaröð:
30. sept. Angela Rawlings, skáld
7.okt. Arna Valsdóttir, myndlistarkona
14. okt. Hlynur Helgason, listfræðingur
21. okt. Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, sýningarstjóri
28. okt. Jón Gunnar Þórðarson, leikstóri
4. nóv. Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður
11. nóv. Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður
18. nóv. Rósa Júlíusdóttir, myndlistarkona og dósent við HA
25. nóv. Stefán Boulter, myndlistarmaður
2. des. Giorgio Baruchello, heimspekiprófessor
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.