Íslensk samtíðarportrett - síðasta sýningarvika í Listasafninu á Akureyri

Portrett_vefur_frett

Framundan eru síðustu dagar sumarsýningar Listasafnsins á Akureyri, Íslensk samtíðarportrett – mannlýsingar á 21. öld, en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst. Á sýningunni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag.

Heiti sýningarinnar felur í sér margar vísanir sem birtast í fjölbreyttri flóru listaverkanna. Um er að ræða áhugaverða blöndu og samspil hugmynda um það sem er íslenskt, um hvað felst í hugmyndinni um samtíð og um það sem orðið portrett stendur fyrir. Allar þessar hugmyndir og oft á tíðum óvænt samspil þeirra eiga sinn þátt í mótun og samsetningu sýningarinnar. Þungamiðja sýningarinnar er hugmyndin um portrettið og það sem það getur leitt í ljós. Það er kjarninn í því sem er önnur ætlun hennar: að birta áhorfendum íslenska samtíð í samspili ólíkra portrettmynda og að draga fram einskonar mósaíkmynd sem segir meira en orð fá mælt og mun meira en hver einstök mynd getur sýnt. Á sýningunni er því leitast við að sýna portrett í víðum skilningi þar sem fjölbreytni í aðferðum, myndhugsun og afstöðu til listsköpunar kemur skýrt fram í margbreytileika verkanna.

Verkin á sýningunni er öll einhvers konar portrett, þau eru tjáning listamanna þar sem reynt er að draga hið einstaka fram í persónunni á mismunandi máta. Sumir þeirra einbeita sér að mannverunni sjálfri, að því að sýna útlit hennar og afstöðu á einfaldan hátt í mynd og draga fram sérstöðu hennar. Aðrir nýta sér hið einstaka á ákveðinn hátt til að draga fram áherslur samfélagsins, þeirrar samtíðar sem við búum við. Þar eru einstök einkenni einstaklingsins í meira mæli falin í þeirri persónu sem verið er að túlka og þar verður umgjörðin sterkari. Hér er það fremur hin almenna ímynd samfélagsins sem listamaðurinn vill draga fram. Heildarmynd sýningarinnar er hugsuð sem sambland þessara þátta sem birtast í mismiklum mæli í sérhverri mynd. Í fjölbreytni sýningarinnar er því falin sú von að hún birti bæði fjölbreytileika hins einstaka í íslenskri samtíð — hvernig bæði fyrirmyndir og listamenn eru einstakir í hugsun sinni og ímyndun — og hina almennu sýn sem samansafn verkanna dregur fram af íslenskri samtíð. Sýningin í heild er því einskonar samsett portrett af því sem gæti talist íslenskt í núinu sem við búum við.

Listamenn:

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Anna Eyjólfsdóttir
Ásta R. Ólafsdóttir
Baltasar Samper
Benni Valsson
Bergþór Morthens
Birgir Andrésson
Birgir Snæbjörn Birgisson
Bragi Ásgeirsson
D. Írís Sigmundsdóttir
Einar Falur Ingólfsson
Erla Sylvía Haraldsdóttir & Craniv A. Boyd
Erling T.V. Klingenberg
Erró
Gjörningaklúbburinn
Guðmundur Bjarnason
Guðrún Vera Hjartardóttir
Gunnar Árnason
Gunnar Karlsson
Halldór Baldursson
Hallgrímur Helgason
Harpa Rún Ólafsdóttir
Helgi Þorgils Friðjónsson
Hertha M. Richardt Úlfarsdóttir
Hjalti Parelius
Hlaðgerður Íris Björnsdóttir
Hrafnhildur Arnardóttir
Hugleikur Dagsson
Hulda Hákon
Hulda Vilhjálmsdóttir
Hörður Sveinsson
Inga Svala Þórsdóttir & Wu Shanzhuan
Jóhann Ludwig Torfasson
Jón Axel Björnsson
Jón Óskar
Jónatan Grétarsson
Karl Jóhann Jónsson
Katrín Elvarsdóttir
Katrín Matthíasdóttir
Kjartan Sigtryggsson
Kristinn Ingvarsson
Kristín Gunnlaugsdóttir
Libia Castro & Ólafur Ólafsson
Magnús Sigurðsson
Margeir Dire
Ólöf Björg Björnsdóttir
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir
Ólöf Nordal
Pálína Guðmundsdóttir
Ragnar Kjartansson
Ragnar Þórissonar
Ragnhildur Stefánsdóttir
Sara og Svanhildur Vilbergsdætur
Sesselja Tómasdóttir
Sigga Björg Sigurðardóttir
Sigurður Árni Sigurðsson
Sigurður Guðmundsson
Snorri Ásmundsson
Spessi
Stefán Boulter
Steinunn Þórarinsdóttir
Stephen Lárus Stephen
Sylvía Dögg Halldórsdóttir
Tómas A. Ponzi
Valdís Thor
Vytautas Narbutas
Þórdís Aðalsteinsdóttir
Þórdís A. Sigurðardóttir
Þrándur Þórarinsson

http://listasafn.akureyri.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband