12.8.2014 | 19:56
Opnun í Ketilhúsinu á laugardaginn kl. 15: Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi
Næstkomandi laugardag, 16. ágúst, kl. 15 opnar í Ketilhúsinu sýning Urta Islandica ehf., Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi, sem samanstendur af myndlist, gjörningum, vöruhönnun, matvælaiðnaði og verslun. Tilgangurinn er að skoða samlegðaráhrif þessara ólíku sviða og þá orku sem losnar úr læðingi þegar skapandi greinar á borð við myndlist komast í tæri við fjármagn sem tengist viðskiptalífinu og öfugt.
Spjótum verður beint að ríkjandi stigveldishugsun innan listgreina og því viðhorfi að listirnar séu í eðli sínu hreinar, frjálsar og óháðar markaðnum. Á sama tíma verður þeirri hugmynd andmælt að listirnar séu byrði á samfélaginu, listamenn afætur og að leggja eigi niður opinbera styrki á þessu sviði. Viðburðurinn er hugsaður sem samræðugrundvöllur og vettvangur fyrir nýja hugmyndafræði þar sem siðfræði, samfélagsábyrgð og sjálfbærni gegna lykilhlutverki.
Sýningarstjóri er Þóra Þórisdóttir myndlistar- og athafnakona.
Sýningin stendur til 21. september og er opin alla daga nema mánudaga kl. 10-17 en kl. 12-17 frá og með 2. september.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.