7.8.2014 | 20:12
Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula
Stundum hef ég ekkert nema fallvalta trú á eigin bein....
að þau standi, að þau haldi...
á meðan brotsjórinn dynur...
hvar ertu til að segja mér að ég hafi það af?
svo oft sem ég óska að þú yrðir tjald...
vildirðu vera tjald?
í þetta eina sinn?
vildirðu breiða úr þér yfir mig...
og lofa mér að róa undir stilltum himni þínum?
reiðin er ekki verst...
reiðina má setja í glas og skála, fyrir styrjöld
þá er henni fagnað með reisn...
og reiðina má svæfa með perlum, fullum af doða...
svo stefnulaust reki dagarnir áfram...
án minnis um hnífsblöð...
hvar ertu þegar ég þarfnast þín?
ég þrauka... ég hef alltaf þraukað...
á meðan allir brostu yfir nekt minni...
brostu og eignuðust börn í brotsjó...
vildi ég þrauka...
því ég trúði að þú kæmir og leiddir mig í hvarf....
og ég stend... þú veist ég stend...
ég stend og ég skelf
á meðan ég brosi og spyr þau um öll þessi börn
sem þau ólu í brotsjó...
þessi börn verða hryðjuverkamenn og kónar...
þau munu særa, serða og sýkja...
en við brosum yfir því...
og lofum þessa brjálæðinga framtíðarinnar...
svikarar! með sýkt blóð
gefa aldrei með sér... þau komu í heiminn til að taka, sýkja
og geta af sér önnur börn í brotsjóinn
en já... ég veit...
ég lýg og sýki líka...
ég er hryðjuverkamaður og kóni...
ég er brjálæðingur sem lætur sig dreyma um byltingu,
til að fella stoðir sem jafnóðum rísa...
hef ég ekki löngu lært hvernig heimurinn baðar sig
í brotsjó?
hvernig heimurinn baðar börnin sín?
hin eilífa endurtekning...
hví ætti ég að þykjast betri... eða verri...?
það er enginn að leita að píslarvætti
í öðrum en sjálfum sér...
því allt snýst um að hafa það af
í þessum vægðarlausa öldugangi...
undir salthnefum og stáli...
og ég stend... þú veist ég stend...
kyrrhuga í brotsjó...
og brosi á meðan ég skelf.
-hekill 2014
Hekla Björt hefur lengi fengist við myndlist og ljóð og sameiningu miðlanna tveggja. Hún starfrækir Gallerí Geimdós á vinnustofu sinni í Gilinu og þar hefur hún boðið fjölda listamanna að sýna við ljóð sem hún sjálf hefur skrifað. Hún hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum en einnig staðið að einkasýningum, nú síðast í Mjólkurbúðinni í Listagilinu þar sem hún sýndi þrívíða skúlptúra í gömlum skúffum. Hún hefur einnig starfað sem listrænn hönnuður fyrir Leikfélagið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og á fuglasafninu á Húsabakka. Í vor setti Hekla svo upp sviðslistaverkið Herba Humana í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar.
Laugardaginn 9. ágúst opnar Hekla sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula klukkan 14:00. Einnig verður opið sunnudaginn 10. ágúst.
Sýningin verður óhefðbundin og miðar fyrst og fremst að upplifun áhorfenda.
Allir eru hjartanlega velkomnir í Kyrrhuga Kapellu
https://www.facebook.com/events/697332977020098
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.