11.7.2014 | 11:16
Reitir 2014 - alþjóðlegt skapandi samstarfsverkefni á Siglufirði
Reitir 2014 - alþjóðlegt skapandi samstarfsverkefni á Siglufirði
Opnar laugardaginn 12. júlí
Verkefnið Reitir býður árlega 25 einstaklingum víðsvegar að úr heiminum til Siglufjarðar að taka þátt í tilraunakenndri nálgun á hinni hefðbundnu listasmiðju. Reitir byggja á þeirri hugmynd að með því að blanda saman starfsgreinum úr mörgum áttum nýtist fjölbreytt reynsla þátttakenda sem grunnur að nýstárlegum verkefnum sem fjalla á einn eða annan hátt um Siglufjörð.
Opnun Reita verður á Siglufirði, laugardaginn 12. júlí kl. 15:00, og þá getur almenningur séð og upplifað fjölbreytt verkefni víðsvegar um bæinn. Athugið að opnunin stendur yfir aðeins þennan eina dag.
Aðalstyrktaraðilar verkefnisins eru Menningarráð Eyþings og Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, eigandi Alþýðuhússins á Siglufirði.
Hér er skemmtilegt myndskeið frá vinnu síðustu daga: http://vimeo.com/100472893
Verkefnið Reitir opnar á morgun, laugardaginn 12. júlí, kl 15:00 í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þar verður boðið upp á léttar veitingar og verkefnið opnað formlega. Um 15:30 verður farið í gönguferð milli verkefna þar sem þátttakendur útskýra hugmyndirnar á bakvið verkefnin. Hér fylgir stutt yfirferð fyrir áhugasama:
Þeir sem hafa áhuga á vísindum ættu að kíkja í The Science Kitchen sem er fyrir utan Alþýðuhúsið. Þar er fengist við allskonar tilraunir á rækjudufti, lúpínum, rafmagnstækjum, efnablöndum og fleiru.
Lengi hefur verið deilt um hvað skuli gera við gamla malarvöllinn við Alþýðuhúsið. Einn hópur Reita greip á lofti þann almannaróm að borgarskipulag Manhattan hafi verið fyrirmynd bæjarskipulags Siglufjarðar og nýtti þá hugmynd í að endurhanna tvö sjónarhorn á Siglufjörð, þar sem hin sögufræga Chrysler bygging frá Manhattan virðist rísa á malarvellinum.

Mikið er um vídeóvinnslu á Reitum í ár. Annars vegar verður sýnd heimildarmynd um tólf einstaklinga sem hafa nýja hugsun og hæfileika eftir síldarævintýrið mikla. Myndin sýnir fjölbreytileika og persónueinkenni fólks. Hin myndin fjallar um hversdagslífið á síldarárunum. Þar velta þátttakendur fyrir sér því lífi sem sjaldan er veitt athygli og setja það upp eftir sínu höfði.
Það má með sanni segja að aldrei hafi verið langt í glensið meðal hópsins. Fyrstu kvöldin var ákveðinn hópur sem heillaðist af fleyttum kellingum og kom af stað heljarinnar markaðssetningu fyrir Skipping Stones. Búin var til húmorísk auglýsing með tilheyrandi stefi og uppsetningu.
Áhugaverður hugbúnaður í formi vef apps sem nýtir GPS staðsetningu snjallsíma og spjaldtölva til fjársjóðsleitar hefur verið unnið á Reitum. Fólki gefst kostur á að fara um bæinn í leit að sögum innfæddra tengdum ákveðnum staðsetningum fjarðarins, sem voru klipptar saman úr viðtölum. Allt saman var forritað og hannað frá grunni, frá leturgerð til allsherjar heildarútlits og virkni.
Dag hvern í þessari viku klukkan 18:00 hefur öllum verið velkomið að koma í Alþýðuhúsið og hitta franska leikkonu sem hefur boðið fólki að segja sér frá leyndarmáli, vandamáli, draumi, játningu, sögu eða hverju sem þig langar til að tala um, á hvaða tungumáli sem er, undir nafnleynd og öryggi. Síðasti dagur The Secret Room verður í Alþýðuhúsinu í kvöld frá kl. 18:00.
Fjölmörg verkefni til viðbótar eru væntanleg, þar má telja kajakgerð, svokallaður Factory Playground tileinkaður yngstu kynslóðinni, kaffihús á ótrúlegum stað í miðjum ruslahaug, hljóðbox og furðulegar vélar með skemmtilegan tilgang.
Útsjónarsemi og ríkt hugmyndaflug hefur verið í fyrirrúmi á Reitum og drifkrafturinn og fjölbreytnin í hópnum er til fyrirmyndar enda hafa þátttakendur unnið viðstöðulaust frá 9:00 til miðnættis alla daga!
Norðlendingar og aðrir gestir eru hvattir til að fara á stúfana og forvitnast á morgun kl. 15 í Alþýðuhúsinu og víðar um bæinn.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.