26.6.2014 | 21:25
Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna KASTALAR í Mjólkurbúðinni
Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna KASTALAR í Mjólkurbúðinni, í listagilinu á Akureyri laugardaginn 28. júní kl. 15.
Listakonan og skáldið Hekla Björt starfar í listagilinu á Akureyri og er þar með vinnustofu og sýningarrýmið Geimdósina.
Hekla Björt um sýninguna:
Skáldið á margar mismunandi sögur í mörgum mismunandi skúffum.
Sumar eru af vængjum og ávöxtum, á meðan aðrar eru af skærum og stingandi fálmurum.
Það eru ótal leiðir til að segja þessar sögur. Það má mála þær á striga, teikna þær á blað, segja þær með nótum, segja þær með orðum, á sviði, á rituðu formi, í bundnu eða óbundnu máli... og svo mætti lengi telja.
En það eru líka sögur sem skáldið segir aldrei...
Það eru sögur skúffuskáldsins, sem skrifar og skapar fyrir endann nema hljóðar skúffur. Stundum er það vegna þess að sögur skáldsins eru einfaldlega ekki nógu góðar sögur. Skáldið vill gleyma þeim... fleygja lyklunum af skúffunum.
En skáldið gat samt ekki gleymt...
Það hugleiddi hvort vond saga gæti nokkurn tímann orðið góð saga. Það hugleiddi hvort hægt væri að endurskrifa sögur minninganna og gera þær ögn betri fyrir vikið.
Skáldið tók því allar sínar vondu sögur og endurskapaði þær sem mínimalískar allegóríur. Formið var þrívítt og skáldið gaf þeim leiksvið úr gömlum skúffum og fann þeim stað og stund til að láta ljós sitt skína.
Staðurinn er Mjólkurbúðin í Listagilinu á Akureyri
og stundin er laugardaginn 28.júní klukkan 15:00.
Allir eru hjartanlega velkomnir
Skúffuskáldið, Hekla Björt Helgadóttir heklingur@gmail.com
s.865 4096
Sýningin KASTALAR í Mjólkurbúðinni er aðeins opin þessa einu helgi.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.