3.6.2014 | 21:12
Íslensk samtíðarportrett í Listasafninu á Akureyri
ÍSLENSK SAMTÍÐARPORTRETT mannlýsingar á 21. öld
Sumarsýning Listasafnsins á Akureyri verður opnuð laugardaginn 7. júní kl. 15 og ber hún yfirskriftina Íslensk samtíðarportrett mannlýsingar á 21. öld. Á sýningunni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag.
Hugmyndin um portrett felst í því að draga fram á listilegan hátt það sem öðrum er almennt hulið. Að einskorða sig við portrett er ein leið til að skoða á hvaða hátt íslenskir listamenn fjalla um samtíðina. Á þessari sýningu birtist áhorfendum samtíðarsýn 70 listamanna sem hafa tekist á við hugmyndina í víðum skilningi og í áhugaverðu samspili ólíkra birtingarmynda fást svör.
Verkin eru á þriðja hundrað talsins og á meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni má nefna Erró, Ragnar Kjartansson, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Hallgrím Helgason, Steinunni Þórarinsdóttur, Hugleik Dagsson, Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Baltasar Samper og Ólöfu Nordal.
Sýningin stendur til 17. ágúst og er opin alla daga nema mánudaga kl. 10-17. Aðgangur er ókeypis.
Meðfylgjandi mynd heitir Svín Gogh og er eftir Karl Jóhann Jónsson.
https://www.facebook.com/listasafnid.akureyri
https://www.facebook.com/events/632875460132381
Flokkur: Menning og listir | Breytt 5.6.2014 kl. 13:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.