19.5.2014 | 13:37
Arnar Ómarsson opnar einkasýninguna Forritað Ástand í Danmörku
Forritað Ástand | Forrit eru líka fólk, fólk!
23. - 26 Maí 2014
Arnar Ómarsson opnar einkasýninguna Forritað Ástand í Danmörku.
Sýningin markar ákveðin þáttaskil í verkefninu Notendur sem Arnar hefur unnið að rúmt síðastliðið ár. Verkefnið inniheldur m.a. sýningar í Halle50 og Firstlines Gallery í München, Alþýðuhúsinu á Siglufirði, Weekends Gallery í London, DAK og loks í Godsbanen í Danmörku þar sem Forritað Ástand - Forrit eru líka fólk, fólk! opnar á föstudaginn.
Verkefnið fjallar um eðli tölvuhugsunar og varpar fram frumspekilegum spurningum um sköpun og greind. Verkin á sýningunni eiga öll það sameiginlegt að ávarpa þann grundvöll þar sem forritum mistekst að tileinka sér mannlega samskiptahætti, hvort sem það er í myndmáli, tjáningu eða textasmíð. Einlægur bragur yfir verkunum lætur áhorfandann finna til samkenndar, en nálgunin manngerir forritin. Arnar kemur fram við forritin líkt og minnihlutahóp sem verður fyrir aðkasti og fordómum. Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóð.
Frekari upplýsingar um Notendur er að finna á usershandbook.com.
Arnar Ómarsson útskrifaðist frá UAL Listaháskólanum í London 2011 með fyrstu einkunn og hefur dvalið í Danmörku síðan. Arnar starfar á Institut for (X), menningarmiðstöð í gamalli lestastöð í Árósum þar sem hann hefur vinnustofu en rekur einnig gestalistamannadvöl, vikulega fyrirlestraröð og sér um alþjóðatengsl hópsins. Verkefnið Reitir á Siglufirði er einnig í stjórn Arnars hvert sumar ásamt Ara Marteinssyni, samstarfsmanni hans til margra ára og er Arnar stofnmeðlimur í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Frekari upplýsingar um Arnar er að finna á arnaromarsson.com
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.