1.5.2014 | 16:51
Georg Óskar Giannakoudakis sýnir í Geimdósinni
Geimdósin kynnir næstu opnun og geimfara:
Georg Óskar Giannakoudakis (1985) og sýninguna
Svo frjáls.
Óskar hefur hlotið mikið lof og eftirtektir fyrir verk sín og samstarfið GÓMS, ásamt Margeiri Dire. Verk hans er hægt að skoða nánar á heimasíðunni: http://georgoskar.com/home.html
Dósin fékk Óskari eftirfarandi ljóð eftir Heklu Björt, að vinna með og verður afraksturinn til sýnis í Geimdósinni, laugardaginn 3. maí:
Og svo verðum við frjáls
Við stöfluðum nokkrum þúsundum reiðhjóla
á þök visnaðra sovétblokka.
Við kveiktum í hjólunum
og fórum svo á bát út á hafið
til að horfa á hrúgurnar brenna.
Þú leist á mig og spurðir: og verðum við svo frjáls?
ég þagði... og eldhafið litaði nóttina yfir þér.
Hinum meginn í firðinum, voru tveir hvítir hestar.
Hauslausir á ströndinni, á harðahlaupum inn í myrkrið.
Ég leit á þig og sagði: Svo verðum við frjáls.
-Hekla Björt 2013
Ljóðið er lýsing úr draumi, og fæst við þá ógn og eftirvæntingu að æða inn í óvissuna. Hvað tekur við og hvað er þarft að losa sig við áður en haldið er áfram og lengra?
Þegar við hugsum um framtíðina, hugsum við í skáldskap, því framtíðin hefur aldrei átt sér stað. Við búum hana til eins og skáldskap og listaverk. Við vitum aldrei hvað hún ber í skauti sér, en okkur er frjálst að dreyma um hana og skálda hana í eigin hugarfylgsnum.
Dósin spurði Óskar út í vinnu sína og vinnubrögð og hvernig textinn orkar á hann sem efniviður.
Óskar segir:
"Ég vinn mikið með æskuminningar, blanda þeim með nýlegri eða núverandi reynslu, þannig að útkoman verður alltaf sönn saga en með vissum skáldskap, því þar sem fortíð og nútíð mætast, þar er plássið fyrir sköpun.
Ég hef aldrei haldið dagbók, en ég hef lært að lokið listaverk er fullkomin dagbók.
"Mér finnst mjög ánægjulegt að grafa inn í undirvitund okkur með þeim aðferðum sem list hefur uppá að bjóða. Það eru svo margar faldnar hliðar lífsins sem er ekki hægt að ná með öðrum hætti. List er sálgreining á sjálfan sig, aðra menn og samfélagið. Í dag krefst heimurinn stöðugt að við að tökum eftir hvar við erum en ekki hver við erum, hann er hávær, og við erum mörg hver fyrirbæri í auglýsingabransanum. Það eru engin ljóð í slíkum hlutum. Ég leita af nýrrar reynslu af einföldum, daglegum hlutum en galdurinn er auðvitað að taka eftir þeim því þarna hafa þeir alltaf verið. Á daginn safna ég upplýsingum sem flestir myndu varla sjá merkilega og eða mikilvæga, og skrái þessa reynslu á striga. Titlar af einstökum verkum eru oftast fædd á sama hátt."
Dósin býður alla velkomna á opnunina næsta laugardag klukkan 15:00. Léttar veitingar verða í boði. Á sama tíma verður svo opnun Lilýar Erlu, Samtvinnað, í Deiglunni og Gilið mun bjóða upp á sól og svalandi menningu.
GEIMDÓSIN, Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.
https://www.facebook.com/geimdosin
https://www.facebook.com/events/289908191169422/
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.