29.4.2014 | 15:17
Lilý Adamsdóttir opnar sýningu í Deiglunni
Lilý Adamsdóttir - SAMTVINNAÐ - Opnun 3. maí kl. 15 - 17
Lilý er fædd árið 1985. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 með BA gráðu í myndlist. Um þessar mundir leggur hún lokahönd á diplómanám við Textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík og stefnir í haust til Svíþjóðar þar sem hún mun hefja mastersnám í listrænum textíl. Hún hefur tekið þátt í sýningum og verkefnum, hér á landi og erlendis. Í verkum sínum nýtir hún sér margskonar miðla, m.a. gjörninga, vídeó, teikningar, textíl og innsetningar.
Lilý heldur nú sína fyrstu einkasýningu í Deiglunni. Í verkum sýningarinnar hefur Lilý beint augum sínum að hinum smæstu ullarhárum og fíngerðustu hreyfingum þeirra. Hún ferðast inn í þráðinn þar sem augnablikið læðist inn í hann og veldur fíngerðri bjögun á formi með rísandi spennu, sem hnígur þegar toppnum er náð. Á sýningunni vinnur hún með vef endurtekninga í textíl þar sem hún skoðar skynjun á hreyfingu þráðarins, ljóðræna teikningu hans og frásögn. Með íslenskan ullarþráð í hönd hefur hún hugleitt fyrirbæri eins og upphaf og endi, efni og afurð, orsök og afleiðingu, tækifæri og fegurð. Niðurstaða hugleiðinga hennar birtist okkur í prjónuðum verkum sem bjóða áhorfandanum upp á sjónrænt samtal. Samhengið gefur tóninn og takturinn er áberandi þar sem tíminn og tengingar áhorfandans við það sem hann sér spila saman í leit að niðurstöðu.
Deiglan - Sjónlistamiðstöðin á Akureyri. Grófargili.
https://www.facebook.com/events/643577375696439/
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.