3.4.2014 | 08:22
Þorgils Gíslason í Geymdósinni
Næsta opnun og flugtak Geimdósarinnar verður laugardaginn 5. apríl og að þessu sinni kynnir Dósin Togga Nolem (Þorgils Gíslason) til leiks.
Kumpáninn sá er kannski þekktastur sem tónlistarmaður, lagahöfundur og upptökustjóri, en einnig nemur hann við Myndlistaskólann á Akureyri og bræðir því ýmislegt annað saman en tónlist.
Dósin færði Nolem ljóðverk eftir Heklu Björt Helgadóttur og vann hann út frá því myndverk og innsetningu, á áhugaverðan hátt.
Hann vill ekkert tjá sig um málið, en verður viðstaddur opnunina í Geimdósinni, næstkomandi laugardag frá klukka 14:00.
Auk þessa, verða svo opnar vinnustofur í Portinu, með sýningu í Gallerí ísskáp og forstofunni, svo hægt verður að fóðra kúltúrskrímslið vel þennan daginn.
Að lokum er það svo ljóðið:
Og sjá
Því kristur er fæddur!
Endurborinn
og upprisinn áfengum dauða
með brunninn tanngarð
og gallgula fingur
þú finnur hann!
Ganga blaut gólf knæpunnar
stika áfram
eftir ælupollum
í húsasundum,
rauðeygan
hlandausinn
negldan syndum
með hrapsár í lófunum
Upprisan
endurkoman
ráfalings með vígsluvín
er hrakinn var á brott
nótt eftir nótt.
En upprisinn
röflar hann sig áfram inn í sátt okkar:
Sjáið mig
kæru hálsar!
og hengið samvisku yðar á mig!
Aum ásjóna mín
sú myrka hryggðarsýn
er ekkert nema holdgerð þjáning yðar!
Í áfengu blóði mínu
flæða syndirnar, sakirnar
og svikulir kossar
á vörum mér.
Svo sjáið mig
kæru hálsar!
en dæmið eigi
ellegar dæmið yður sjálf
þið fótfúnu þrælar
eigin svipuhögga
Því ykkar er ríkið
mátturinn og dýrðin
til lífs og til mistaka
að eilífu
eyðing
Geimdósin. Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið, gengið inn úr portinu að ofan, baka til.
https://www.facebook.com/events/1460682397498678
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.