10.9.2013 | 20:02
Jóhannes Dagsson sýnir í Mjólkurbúðinni
Jóhannes Dagsson opnar myndlistasýningu sína Aftur í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 14.september kl. 15.
Verkin á sýningunni eru afrakstur ljóðrænnar könnunar/rannsóknar Jóhannesar á eiginleikum sem yfirleitt eru eignaðir óhlutbundnum myndverkum, svo sem merkingarbæru formi, litum og endurtekningu sem myndrænt stef. Sem slíkir eru þessi eiginleikar vitanlega hluti af hvaða mynd sem vera skal, en hér veltir hann þeim fyrir sér sem hluta af arfleið myndlistar, og þá sérstaklega málverksins. Hér er stutt í skrautið og merkingarleysið (eins og Kandinsky óttaðist svo mjög) og jafnvel enn styttra í verk annarra og betur þekktra höfunda.
Efniviðurinn í verkin kemur úr náttúruupplifunum listamannsins, en í stað þess að vinna meira eða minna beint uppúr þeim er frekar unnið með upprifjanir, afbakanir og tilfinningalega uppspenntar útgáfur, eins og til þess að einangra betur þau einkenni sem hann hefur áhuga á. Í grunninn snýst þetta um hvað við sjáum og hvað við sjáum ekki.
Aftur vísar því ekki aðeins til þess að efnið er gamalt og endurunnið heldur einnig til endurtekningarinnar (eins og í aftur og aftur) og í að viðfangsefnið hefur verið unnið aftur og aftur.
Jóhannes Dagsson lauk námi frá Edinburgh College of Art 2003, og frá University of Calgary 2012. Jóhannes hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í nærri því jafn mörgum samsýningum.
Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga meðan sýningin stendur kl. 14-17 og eru allir velkomnir.
Mjólkurbúðin Listagili er á facebook - Vertu vinur!
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.