Guðrún Pálína Guðmundsdóttir opnar sýningu í Kartöflugeymslunni

IMG_2070 

 

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir bæjarlistamaður Akureyrar 2013 opnar myndlistarsýninguna Rými, í Kartöflugeymslunni, Kaupvangsstræti 29, efst í Listagilinu á Akureyri þar sem arkitektastofan Kollgáta er. Sýningin opnar laugardaginn 10 ágúst kl. 15 og er hún opin alla daga á milli klukkan 14-16. Á sýningunni eru málverk sem öll fjalla um rýmið í víðum skilningi. Sýningin stendur út mánuðinn.

Málverkin fjalla um rými í víðri merkingu. Orðið er eins í eintölu og fleirtölu og á því vel við hér. Í tungumálinu er talað um að skapa sér rými, einnig um almenningsrými, einkarými, andrými, tómarúm og fl. og gefur það til kynna þörf fyrir að skilgreina rýmið utan og innra með einstaklingnum. Við flokkum hluti og skiptum þeim niður í hólf eða einhverskonar huglægt rými. Oft er einstaklingunum skipt eftir menntun, aldri, kyni og stjórnmálaskoðun.

Grunnþáttur þess að gera mynd er að skapa rými á persónulegan hátt með litum og myndbyggingu. Hver litur hefur sína eigin rýmisskynjun, sumir litir, þeir köldu víkja og þeir heitu koma fram. Ljós og myrkur hafa líka mikil áhrif á það hvernig maður skynjar rýmið, ásamt hitastigi og litum.

Þar sem þessi sýningarsalur er í arkitektastofu sem er byggð inn í brekkuna þá fannst mér tilvalið að sýna þessa myndaseríu frá 1994-1995 sem ég hef aldrei sýnt áður sem heild. 

Að breyta gamalli kartöflugeymslu í nútíma arkitektastofu og sýningarsal finnst mér vel heppnuð breyting á notagildi og endurbyggingu rýmis. Í því rými fannst mér ég loksins eftir nær 20 ár finna passandi rými fyrir málverkin, þar sem útlit og innihald verkanna passaði við sjálft sýningarrýmið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband