31.7.2013 | 23:03
Síðasta sýningarhelgi í Ketilhúsi og Deiglu
RÉTTARDAGUR
50 sýninga röð
Sýningar Aðaheiðar S. Eysteindóttur í Listagilinu á Akureyri og nágrenni þess, Réttardagur 50 sýninga röð, hafa undanfarnar vikur notið mikilla vinsælda. Aðsóknin hefur verið með eindæmum þar sem þúsundir hafa heimsótt sýningarnar. Ungir sem aldnir eru uppnumdir af hrifningu því verk Aðalheiðar höfða til allra aldurshópa og margir hafa komið oftar en einu sinni. Þannig hefur þetta verkefni einnig fengið marga til að heimsækja Listagilið sem vanalega leggja ekki leið sína þangað.
Viðfangsefni sýninganna er íslensk bændamenning og menning tengd sauðkindinni og var það ætlun Aðalheiðar að sýna breiða mynd af samfélagi sem lætur ekki mikið yfir sér en er engu að síður undirstaða vænlegs lífs. Í sýningarskrá segir hún jafnframt: Hinar ýmsu hliðar menningar sem við tökum sem sjálfssögðum hlut og hugum því ekki dags daglega að mikilvægi hversdagsleikans. Þetta vinnuferli hefur leitt mig á óvæntar slóðir myndlistar og þroskað mig sem einstakling í samfélagi listamanna.
Aðalheiður sjálf, gestalistamenn og fríður flokkur aðstoðarfólks sem vann sem einn maður að uppsetningu sýninganna hefur gert þetta að eftirmynnilegu sumri í Listagilinu á Akureyri.
Sýningum Aðalheiðar í Ketilhúsi og Deiglu lýkur um Verslunarmannahelgina, sunnudaginn 4. ágúst, en sýning hennar í Listasafninu á Akureyri stendur til 11. ágúst. Sjónlistamiðstöðin er opin alla virka daga frá kl. 9-5 og er aðgangur ókeypis.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.