Listumfjöllun um sýningar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur

kindur_ae_1207199.jpg

Listumfjöllun um sýningar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

ALLA FYRIR ALLA

Sýningar Öllu, Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, opnuðu laugardagskvöldið 22. júní s.l. og eru alls tíu, í sjö sýningarrýmum í Listagilinu á Akureyri og nágrenni þess. Alla vinnur sýningarnar með þátttöku 15 annarra lista- og leikmanna og listnema. Þetta er endapunktur verkefnisins Réttardagur 50 sýningaröð en það hófst á 45 ára afmæli hennar 23. júní 2008.

Á heimasíðu Sjónlistamiðstöðvarinnar (www.sjonlist.is) segir að Alla fjalli hér um íslensku sauðkindina og menningu henni tengdri þar sem markmiðið sé að byggja brú milli listsköpunar og raunveruleikans.

Á heimasíðu Myndlistarfélagsins (www.mynd.blog.is) er hægt að fræðast frekar um verkefnið og þá titla sem hver sýning ber. Í hverjum sýningarsal fyrir sig er titla einnig getið og samstarfsaðila.

 

Listin og raunveruleikinn

Sýningarnar hafa áður flakkað um landið, auk þess sem hún hefur sýnt víða erlendis. Má nefna sýninguna Að kvöldi réttardags sem var í Safnahúsinu á Húsavík fyrir tveimur árum, einnig sýninguna Á bóndadag  í Listasafni Reykjanesbæjar þar sem hljómsveitin Hjálmar lék, við opnunina. Meðlimir hljómsveitarinnar umbreyttust svo líkt og hendi væri veifað í listaverk eftir Öllu og stóðu hljóðir, en sem lifandi, eftir á sviðinu. Í Ketilhúsinu er þessi sýning endurgerð og ómar tónlist Hjálma þar í síbylju til að auka á stemninguna og virkja bæði skynfæri sjónar og heyrnar.

Á opnuninni fékk bragðskynið einnig að njóta þess að smakka á sviðum úr trogi, hjá gestum á Þorrablótinu (stytturnar). Þetta er athyglisverð blanda þess hvernig raunveruleiki sýningargestanna blandast þeim raunveruleika sem list Öllu tjáir. Verða sýningargestirnir kannski sjálfir að list við að sitja við sama borð og stytturnar og neyta með þeim matvöru eða drykkja? Oft getur áhorfandinn ekki, í fljótu bragði, greint hvað er stytta og hvað er lifandi fólk. Sýningargestum gefst tækifæri til að upplifa það í Listasafninu þar sem í boði er kaffibrauð og kaffi.

 

Er raunveruleikinn list?

03thxyh.jpgAlla minnir okkur á að listin er ekki raunveruleikinn. Við gleymum okkur við að horfa á kindurnar í réttinni og á ótrúlega lifandi styttur af bændum og aðkomufólki utan réttarinnar og bregður við þegar hljóðið sem er undir er hljóð frá trésmíðum listamannsins en ekki jarm kinda og mannsraddir eins og venjan er í réttum. Þetta eru sem sagt ekki ekta dýr, heldur eftirlíkingar, unnar úr afgangs-spýtum. Sumir pirrast og vilja frekar jarmið og raunveruleg hljóð frá réttum sem leyfir þeim að halda ótruflað í tilfinninguna fyrir sveitasælu og að trékindurnar séu alvöru dýr. Aðrir breyta einfaldlega meðvitað eða ómeðvitað þeim hljóðum sem þeir heyra í þau hljóð sem þeir telja sig hafa heyrt eða vilja heyra og snúa þannig skynjun sinni í það sem hentar þeim best. Aðrir skilja bara ekki hvaða mistök hafa átt sér stað; ruglaðist nokkuð hljóðdiskurinn, tilheyrir hann kannski annarri sýningu? Átti jarmið að vera þarna til að gera listina sem líkasta raunveruleikanum, eftirlíkingu og láta okkur gleyma því að þetta er listsýning en ekki raunveruleiki.

 

Listin hreyfir við skynfærunum

Svipuð tilfinning grípur einhverja gesti þegar þeir koma í vestursal Listasafnsins og sjá kindur á færibandi á leið til slátrunar. Við enda færibandsins er timbursög sem minnir áhorfendann á að þetta eru timburkindur en ekki lifandi dýr á leið til alvöru slátrunar. Slátrarinn stendur eins og lifandi maður með hvíta svuntu, með blóðslettu á. Á veggnum er kindahausum haganlega komið fyrir og getur áhorfandinn fundið ýmislegt út úr því t.d. styttur, sem list heima á vegg, dýrahausar sem eru að verða að sviðum á Þorrablóti, listaverk sem haganlega er komið fyrir á listsýningu o. fl. o. fl. Skynfæri okkar og líkami bregðast mismunandi við eftir því hver afstaða okkar er sem áhorfenda. Ef við hugsum um hausana sem svið/mat  sem okkur líkar, fáum við vatn í munninn og  finnum til svengdar. Ef við hugsum um hausana sem listaverk sem okkur langar til að eignast  förum við að telja peningana okkar í huganum, fáum ekki vatn í munninn en hugsanlega ívið hærri púls og aukið adrenalínflæði. Þannig mætti lengi telja þau áhrif eða þær hugsanir sem áhorfandinn skynjar á hverri sýningu. Á sýningunni Sauðburður í Mjólkurbúðinni er jarm sem tekið er upp á sauðburði og þar geta skynfærin aftur ímyndað sér sveitailminn og náttúrutenginguna og gleymt því eitt andartak að um listsýningu er að ræða gerða úr afgangs-spýtum sem aðrir hafa litið á sem ónothæft drasl og viljað henda. Leikur Öllu að frummyndum og eftirlíkingum er spennandi og gefur áhorfandanum tækifæri til að staldra við og hugsa.

 

Sauðkindin heldur velli

Í sýningarskrá sem Alla hefur gefið út og er til sölu í sýningarsölunum segir hún: “Merkilegt hvað fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóðarsál Íslendinga. Innan um alla nýsköpun heldur sauðkindin velli”. Í skránni er fjallað um tildrög  sýninganna og þar eru upplýsingar um alla þá 15 sem tóku þátt í verkefninu með henni og of langt mál er að telja upp hér. Nöfn þeirra eru sem fyrr segir í öllum sýningarsölunum eftir því sem við á. Þar skrifar einnig Jan Voss myndlistarmaður og dregur upp glögga mynd af Öllu. Hann segir að margt af því sem hún taki sér fyrir hendur kalli á þátttöku annarra. Einnig nefnir hann  hennar næma auga fyrir hlutföllum og að hún nýti sér það í list sinni. Hann rekur frásögn sína af fyrsta spýtukubbaskúlptúrnum, eins og hann kallar það, sem hann sá. Það var stytta af Dieter Roth sitjandi við borð að skrifa. Hrökk Jan við því honum fannst hann þarna sjá Dieter sem raunverulegan en hann var þá löngu látinn. Þess skal getið að Alla hitti Dieter aldrei í lifanda lífi. Næmt auga hennar og listfengi getur þannig blekkt áhorfandann.

Í sýningaskrá sem gefin var út af Listasafni Reykjanesbæjar vegna sýningaraðarinnar 2012 skrifar Aðalsteinn Ingólfsson: “Í myndverkum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur á sér stað óvenjulegra stefnumót íslenskra og erlendra myndlistarhefða en við höfum áður séð. Annars vegar eru verk hennar íslenskara en allt sem íslenskt er, sprottin beinustu leið upp úr margra alda gamalli tálgunar- og tréskurðarhefð meðal þjóðarinnar, í bland við alþýðlega sagnalist af kynlegum kvistum eins og þeim sem birtast ljóslifandi í skáldsögum Jóns Thoroddsen. Á hinn bóginn sækir Aðalheiður vinnubrögð sín til myndlistarmanna beggja vegna Atlantsála sem meðvitað og ómeðvitað ögruðu hámenningarlegum viðhorfum neysluþjóðfélagsins með endurvinnslu úrgangs af ýmsu tagi”. Hann telur svo upp nokkra listamenn en hægt er að sjá þennan texta í heild sinni á heimasíðu Öllu www.freyjulundur.is

 

Alla slær aðsóknarmet

alla_flora.jpgÁ sýningum Öllu eru aðsóknarmet iðulega slegin. Þegar þessi texti er skrifaður, 3. júlí, er rúm vika liðin frá opnun sýninganna  og skráðir eru á annað þúsund gestir í skráningarkerfi Listasafnsins og þá er ekki talið margmennið á opnunarkvöldinu. Mannfjöldinn í Listagilinu, á opnuninni, minnti helst á hátíðir eins og Akureyrarvöku.

Öll þessi mikla vinna Öllu er launalaus því Sjónlistamiðstöðin og flest önnur söfn hafa ekki tekið upp þann sið, sem tíðkast víða erlendis, að greiða listamönnum laun fyrir sýningarhald að undanskildu Listasafni Reykjavíkur. Leikarar, tónlistarmenn og dansarar fá greidd laun fyrir þá vinnu sem þeir framkvæma í opinberum stofnunum, en ekki myndlistarmenn. Ekki þótti úthlutunarnefnd listamannalauna heldur ástæða til að veita Öllu styrk í þetta stórfenglega verkefni sem sýnir það yfirlæti sem viðgengst gagnvart landsbyggðinni og þeim listamönnum sem þar starfa. Ekki nokkur listamaður hefur nokkru sinni, í sögu landsins, opnað jafn viðamikla sýningu á jafn mörgum stöðum og boðið til annarrar eins veislu. Íslendingar vilja að miklu leiti byggja afkomu sína á ferðamennsku. Það sem erlendir ferðamenn  vilja helst sjá fyrir utan landslagið og náttúruna er menning og listir landsins. Listir þrífast ekki í endalausri sjálfboðavinnu og hjáverkum, ekki á þann hátt sem er samkeppnishæft við þær þjóðir sem við viljum helst bera okkur saman við, Norðurlöndin og lönd í vestur Evrópu. Þær þjóðir eyða margfalt hærri prósentu í framlög til lista en hér er gert enda byggir t.d. Holland upp ferðamannaiðnað sinn mestmegnis á listum Rembrandts og Van Gogh. Styðja verður við listir og vernda alveg eins og aðra atvinnuvegi ef á að gera út á þær til framtíðar. Því er umræða dagsins um niðurfellingu listamannalauna tímaskekkja. Ólafur Elíasson hefur margoft þakkað það danska styrkjakerfinu hvað honum tókst að koma sér vel áfram í listinni, fyrst í París, svo allri Evrópu, Ameríku og öðrum heimshlutum.

 

Ókeypis aðgangur og leiðsögn

Sýningar Öllu standa mislengi eftir sýningarrýmum en sú í Listasafninu stendur til 11. ágúst. Reglulega er boðið upp á  leiðsögn um sýningarnar sem er gagnlegt fyrir þá sem vilja frekari fræðslu og upplýsingar. Það nýtist til að dýpka skilning,  skerpa sýn sína og hugsanlega sjá sýninguna og umhverfið með öðrum augum. Það þarf þjálfun í að njóta menningar og lista og fræðsla um sýningar er ein leið til þess. Leiðsögnin er ókeypis sem og aðgangur í Sjónlistamiðstöðina. Allir ættu að hafa gagn og gaman af því að sjá sýningarnar sem eru  áhugaverður samsetningur þess þjóðlega og þess alþjóðlega sem á sér stað í listum í dag. Sýningarnar eru uppspretta margskonar tilfinninga og vangaveltna. Fólk á öllum aldri, óháð menntun eða þjóðfélagsstöðu, ætti að geta notið hennar hver á sinn hátt. Á sýningunni getur áhorfandinn séð í styttunum einstaklinga sem hann telur sig þekkja eða kannast við úr sínu daglega lífi eða fjölmiðlum, jafnvel séð sjálfan sig í einhverjum þeirra. Mjög gott er að skoða sýningarnar oftar en einu sinni því menn upplifa og sjá sífellt eitthvað nýtt og hlutirnir breytast við áhorf.

Fyrir þá sem meira vilja vita um sýningarnar og list Öllu má benda á viðtal við Hlyn Hallsson myndlistarmann í Víðsjá, RÚV, mánudaginn 24. júní s.l. Hann telur samstarf vera það sem mest er einkennandi fyrir Öllu og hennar list; samstarf sem hún á við aðra einstaklinga eða hópa – að það sé áhugaverður grunnur að því sem hún gerir og nefnir hann þar mörg dæmi. Einnig tengir Hlynur hana  sterkt við Dieter Roth og Fluxus-hreyfinguna.

Flestir fjölmiðlar landsins hafa undanfarið fjallað um þær sýningar Öllu sem nú standa yfir á Akureyri enda er um stórviðburð að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband