19.6.2013 | 23:18
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnar 10 sýningar samtímis á Akureyri
RÉTTARDAGUR
50 sýninga röð
22. júní kl. 22.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir 10 sýningar samtímis í Listagilinu á Akureyri, þ.e. í öllum sýningarsölum Sjónlistamiðstöðvarinnar og sal Myndlistafélagsins, Populus Tremula, Flóru og Mjólkurbúðinni.
Um er að ræða lokin á verkefninu Réttardagur50 sýninga röð sem staðið hefur yfir síðan júní 2008.
Sýnd verða nokkur hundruð verk eftir Aðalheiði unnin á síðustu 5 árum auk verka 15 annarra listamanna sem eru gestalistamenn á sýningunum.
Á opnunarkvöldinu verða lesin upp ljóð, sungið, fluttir gjörningar og tónlist.
Aðalheiður hefur nú þegar sett upp 40 sýningar í verkefninu sem allar fjalla á einn eða annan hátt um íslensku sauðkindina og þá menningu sem henni tengist. Sýningarnar hafa ratað í flesta landshluta og til Danmerkur, Þýskalands, Bretlands og Hollands. Á hverjum stað fyrir sig hefur Aðalheiður kallað til skapandi fólk og aðra listamenn til þátttöku í sýningunum og tengt sýningarnar dagatali sauðkindarinnar svo sem sauðburði á vorin og slátrun á haustin.
Á þessum síðustu sýningum í verkefninu eru það listamenn tengdir Akureyri sem krydda sýningar Aðalheiðar:
Jón Laxdal Halldórsson
Guðbrandur Siglaugsson
Georg Óskar Giannakoudakis
Margeir Dire
Freyja Reynisdóttir
Gunnhildur Helgadóttir
Arnar Ómarsson
Jón Einar Björnsson
Miriam Blakkenhorst
Arndís Bergsdóttir
Níels Hafstein
Arna Valsdóttir
Þórarinn Blöndal
Hlynur Hallsson
Nikolaj Lonentz Mentze
Að kvöldi 22. júní opna í Listasafninu á Akureyri þrjár sýningar:
Réttarkaffi, þar sem sett er upp einskonar kaffihús með öllu tilheyrandi en allt smíðað og unnið úr margvíslegum efnum. Þar taka þátt í verkinu auk Aðalheiðar, Jón Einar Björnsson og Níels Hafstein. Á opnun verður Guðmundur Oddur Magnússon með gjörning.
Réttardagur sem er kindarétt með manni og mús; rúmlega 100 kindur, bændur, börn og bæjarfólk að horfa á. Þá sýningu vinnur Aðalheiður í samvinnu við Arnar Ómarsson. Á opnunarkvöldinu mun kór Myndlistaskólans á Akureyri flytja gjörning, Þórarinn Hjartarson og fl. munu syngja í réttinni og Aðalsteinn Þórsson verður með gjörning.
Slátrun er sýning unnin í samvinnu við Þórarinn Blöndal. Þar verður kindasláturvélafæriband sem gerir útaf við timburkindur. Á opnun verður gjörningur.
Í Ketilhúsinu er sett upp félagsheimili. Þar stendur yfir Þorrablót. Sú sýning er unnin í samvinnu við Jón Laxdal, Guðbrand Siglaugsson, Gunnhildi Helgadóttur, Arnar Ómarsson, hljómsveitina Hjálma og Nicolai Lorends. Á opnun verður Aðalheiður með gjörning, Guðbrandur Siglaugsson les upp ljóð og Þórey Ómarsdóttir syngur.
Á svölum Ketilhússins verður lágmyndasýning sem nefnist Bændur.
Í anddyri Ketilhúss verður standandi smiðja fyrir gesti.
Í Deiglunni verður sýningin Á fjalli sem er unnin í samvinnu við Georg Óskar, Margeir Sigurðsson og Freyju Reynisdóttur. Sýningin fjallar um kindur á fjalli, þoka læðist yfir og hugmyndir um huldufólk og álfa kvikna. Á opnun kveður Kristín Sigtryggsdóttir.
Mjólkurbúðin er gallerí sem hefur stóran glugga að götunni. Þar verður sauðburður, videoverk, hljóðverk og timburverk.
Populus Tremula sem er í kjallara Listasafnsins, hýsir sýninguna Fengitíma sem unnin er með Örnu Valsdóttur. Aðalheiður er þar með skúlptúra og Arna með verkið Kvika. Á opnun munu Norðanpiltar flytja vel valin lög og ljóð.
Í Boxi, sal Myndlistafélagsins verður sýning sem er að kvöldi réttardags. Sú sýning er unnin með Arnari Ómarssyni og fjallar um stemmninguna sem myndast þegar nokkrar kindur eru eftir í réttinni og bóndinn hugar að þeim að kvöldinu. Ríkisútvarpið hljómar úr litlum kofa og eina lýsingin inn á sýninguna eru bílljós. Á opnun les Jón Laxdal upp ljóð.
Flóra er verslun í Hafnarstræti 90. Þar verður sýning á bændum í bæjarferð og mun Hlynur Hallsson taka þátt í einu verkanna þar. Á opnun verður falið verk eftir Aðalheiði í versluninni Flóru, sem einn sýningagesta eignast.
Viðburðir á opnun:
Kl. 22.00 Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, uppákoma neðst í Listagilinu.
Kl. 22.30 Norðanpiltar, tónlist í Populus Tremula.
Kl. 22.30 Guðmundur Oddur Magnússon, gjörningur á gangi um sýningarnar.
Kl. 22.45 Þórarinn Hjartarson og fl. réttarsöngur í Listasafninu.
Kl. 23.00 Nemendur Myndlistaskólans á Akureyri, gjörningur á Listasafninu.
Kl. 23.05. Kristín Sigtryggsdóttir kveður í Deiglunni.
Kl. 23.15 Guðbrandur Siglaugsson, upplestur í Ketilhúsinu.
Kl. 23.30 Jón Laxdal Halldórsson, upplestur í sal Myndlistafélagsins.
Kl. 23.45 Sá á fund sem finnur, gefins verk eftir Aðalheiði í Flóru.
Kl. 23.45 Aðalsteinn Þórsson, gjörningur á Listasafninu.
Kl. 00.00 Þórey Ómarsdóttir , söngur og upplestur í Ketilhúsinu.
Kl. 00.15 Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, gjörningur í Ketilhúsinu.
Aðalheiður hvetur sýningargesti til að mæta í þjóðbúningum og lopapeysum.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.