6.3.2013 | 14:45
Guðrún Einarsdóttir og Ragna Róbertsdóttir í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 9. mars kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning á verkum þeirra Guðrúnar Einarsdóttur og Rögnu Róbertsdóttur en þessar listakonur eiga það sameiginlegt að vinna með efni sem tíminn hefur fengið að móta. Guðrún vinnur með olíuliti og bindiefni sem hún blandar saman af þekkingu málarans. Hún lætur tímann vinna á litablöndum, sem skildar eru eftir á strigafleti mánuðum saman, eða þangað til olíuliturinn hefur tekið á sig ákveðna mynd. Útkoman eru málverk sem byggja á hreinni efnafræði, með sterka skírskotun til náttúrunnar og náttúrlegra ferla. Ragna Róbertsdóttir vinnur með náttúrleg efni, eins og hraun, skeljar og sjávarsalt, sem orðið hafa til úti í náttúrunni. Þessi náttúrlegu efni hafa gengist undir breytingar á löngum tíma, þar sem ágangur veðurs og sjávar hefur brotið þau niður og þau tekið á sig nýjar myndir við efnahvörf. Ragna grípur inn í þetta náttúrlega ferli með því að taka efnin og móta í listræn form, sem eiga sér hverfulan líftíma í listinni.
Sýningin stendur til 21. apríl og er opið alla daga nema mánudaga og þriðjudaga kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis.
Meginstyrktaraðilar Sjónlistamiðstöðvarinnar eru Flugfélag Íslands og Flytjandi.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.