28.11.2012 | 17:37
Hafdís Brands opnar leirlistasýninguna Gersemar í Mjólkurbúðinni
Hafdís Brands opnar leirlistasýninguna Gersemar í Mjólkurbúðinni í listagilinu á Akureyri, laugardaginn 1.desember kl. 15.
Hafdís Brands um sýninguna:
,,Gersemar leynast á ýmsum stöðum og misjafnt í hugum fólks hvað gersemar eru. Í verkum mínum vinn ég með náttúruna og þær gersemar sem fyrirfinnast í mínum huga þar. Í sýningunni birtast katlar, pollar, pyttir og ker sem geyma mína tjáningu á náttúru og krafti landsins. Þau birtast endurmynduð sem minnisvarðar um náttúruna sem á sífellt undir höggi að sækja. Von mín er að verkin minni okkur á hvernig við komum fram við náttúruna og mikilvægi varðveislu hennar".
Hafdís Brands hefur starfað að leirlist í meira en 20 ár. Hún lærði í Myndlistarskóla Reykjavíkur 1986-1990 og fluttist síðar til Skotlands þar sem hún stundaði nám við Robert Gordon University, Aberdeen, 2001-2003 og fór í beinu framhaldi í Glasgow School of Art og lauk þar BA námi 2007 í listhönnun á keramiksviði.
Hafdís bjó í Skotlandi í sjö ár og rak þar eigið verkstæði og gallerí. Í dag býr hún á Íslandi og er bæði félagi í skoska leirlistafélaginu og því íslenska og er það draumur hennar að geta búið og starfað á báðum stöðum. Hafdís vinnur jafnt nytjahluti og skúlptúra í leirinn og brennir verk sín annað hvort í rafmagnsofni við 1160 °c eða notast við sag og raku brennslu útivið þegar veður leyfir.
Hafdís Brands hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum bæði hérlendis og erlendis og hlaut hún 1.verðlaun hjá Milton Art Gallery í Deeside í Skotlandi fyrir listaverk 2002. Ári síðar hlaut hún það verkefni að setja upp mósaíkverk hjá Woodend Barn Art Center í Banchory í Skotlandi.
Sýning Hafdísar Brands, Gersemar í Mjólkurbúðinni stendur til 16.desember og eru allir velkomnir.
Opið 1.-9 desember daglega og verður Hafdís Brands á staðnum kl. 14-17. Síðustu sýningarhelgi 15.-16.desember er opið kl. 14-17
Mjólkurbúðin s. 8957173 Dagrún Matthíasdóttir
Mjólkurbúðin Listagili er á facebook!
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.