18.10.2012 | 13:56
Opnar vinnustofur í Flóru á laugardag
Viðburðarstaðnum, versluninni og vinnustofu Flóru hefur undanfarnar vikur verið komið fyrir í Gamla Kaupfélagshúsinu í Hafnarstræti 90 á Akureyri, en í því húsi var verslunin Frúin í Hamborg starfrækt síðustu ár. Í tilefni af þessum umbreytingum opnar Flóra vinnustofur hússins laugardaginn 20. október kl. 15-17.
Gamla Kaupfélagshúsið á Akureyri hefur því enn á ný fengið nýtt hlutverk, en margvísleg starfsemi hefur verið í húsinu frá því að það var reist af Pöntunarfélagi Eyfirðinga (síðar Kaupfélag Eyfirðinga) í upphaflegri mynd árið 1898, en þar á meðal er prentsmiðja, ljósmyndastofa, ferðaskrifstofa, ræðisskrifstofa, tannlæknastofa, verslanir, steinasafnarar og stjórnmálastarfsemi.
Og nú er Flóra starfrækt á tveimur neðri hæðum hússins, en eins og kunnugt er þá var Flóra áður rekin í suðurhluta Listagilsins á Akureyri.
Með flutningum var starfsemi Flóru einnig víkkuð út að hluta. Jafnframt því að vera verslun sem leggur áherslu á endurunnar vörur, endurnýtingu og náttúruvörur, ásamt myndlist, tónlist og bókmenntum, hefur Flóra staðið fyrir ýmsum viðburðum svo sem myndlistasýningum, upplestrum, gjörningum og kvikmyndasýningum. Í gamla húsnæðinu í Listagili var einn aðili með vinnustofu í Flóru en nú hefur þeim fjölgað í sex, fólk sem sinnir fjölbreytilegu skapandi starfi eins og ljósmyndun, saumum, skrifum, fræðistörfum, textílþrykki og myndlist og þá er nú ekki allt upp talið. Áherslan í starfinu er enn sem fyrr á endurvinnslu og endurnýtingu.
Á opnum vinnustofum Flóru á laugardag býðst fólki að rölta um staðinn með kökubita og kaffi, kynnast þessu sögufræga húsi betur og sjá það sem verið er að vinna að. Allir velkomnir.
(Á meðfylgjandi mynd má sjá þau sem eru með vinnustofur í Flóru en það eru: Hlynur Hallsson, Sigurjón Már Svanbergsson, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Elín Hulda Einarsdóttir, Marta Kusinska og María Franksdóttir Ellmer.)
flóra - hafnarstræti 90 - 600 akureyri - s.6810168 - http://floraflora.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.