Heimildarmyndin STEYPA sýnd í Flóru

fb_steypa.jpg unnar_steypa.png


Heimildarmyndin STEYPA eftir þau Markús Andrésson og Ragnheiði Gestsdóttur verður sýnd í Flóru fimmtudagskvöldið 11. október 2012 kl. 20
Heimildamyndin STEYPA er mynd um íslenska samtímamyndlist. Í myndinni er fylgst með sjö listamönnum um tveggja ára skeið. Þeir eru að koma undir sig fótunum heima og erlendis og tengjast hvor öðrum á ýmsan hátt. Steypa gefur innsýn í vinnuferli og viðhorf þessarar kynslóðar, sýnir hvernig hugmyndir fæðast og eru útfærðar í listaverk.

Myndin er sýnd í tilefni sýningar Unnars Arnar Auðarsonar í Flóru sem nefnist "Brotabrot úr afrekssögu óeirðar á Íslandi: Fyrsti hluti / Fragments From the Deeds of Unrest in Iceland: Part One". Ásamt Unnari fjallar STEYPA um Ásmund Ásmundsson og Katrínu Sigurðardóttur en þau sýna einmitt um þessar mundir í Listasafninu á Akureyri enda tilnefnd til Sjónlistaverðlaunanna 2012. Auk þeirra þriggja er fjallað um Gjörningaklúbbinn, Margréti H. Blöndal, Huginn Þór Arason og Gabríelu Friðriskdóttur í STEYPU.

Ásmundur hellir Pepsí í Fanta-flöskur og spyr sig „Hvað er list?“ Hann stingur upp á að það sé það sem listamaður geri. Með það til hliðsjónar er áhersla heimildamyndarinnar á það ferli sem listamennirnir ganga í gegnum áður en verk þeirra verða að veruleika. Gabríela hendir í deig og smellir á andlitið á sér, Margrét heillast af hulsum og pakkningum í Mosfellsbæ, Huginn klippir af sér hárið og lætur búa til hárkollu, Unnar stelur afleggjurum á elliheimili, Gjörningaklúbburinn endurskapar stjörnuhiminn Van Goghs úr lakkrísafgöngum, Katrín smíðar lítið hús til þess eins að henda því fram af stærra húsi. Hvað liggur að baki? Á þetta erindi við okkur hin?

STEYPA kom upphaflega út árið 2007 þegar hún ferðaðist á milli kvikmyndahátíða víða um heim, en hún var tekin á árunum 2003-06.

Myndin er með íslensku tali og enskum texta og tekur um klukkutíma í sýningu en á eftir verða umræður um myndina og um íslenska samtímalist.

STEYPA  er sýnd í Flóru í samvinnu við Kvikmyndaklúbbinn KvikYndi og Lofi Productions sem framleiðir myndina. Það er ókeypis aðgangur.

http://vimeo.com/33758581


Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband