27.9.2012 | 23:14
Aðalheiður Valgeirsdóttir með listamannaspjall í Mjólkurbúðinni
Myndlistakonan Aðalheiður Valgeirsdóttir býður í listamannaspjall, laugardaginn 29. sept. kl.15 í Mjólkurbúðinni Listagilinu á Akureyri í tengslum við sýningu Aðalheiðar Jarðsamband.
Sýning Aðalheiðar Jarðsamband opnaði 15. september og er nú komið að sýningarlokum hennar í Mjólkurbúðinni. Sýningin er opin laugardag og sunnudag kl. 14-17 og eru allir velkomnir.
Um sýninguna:
Málverkin vann Aðalheiður á vinnustofu sinni í Biskupstungum. Í nálægð við náttúruna og síbreytilega ásýnd hennar allan ársins hring vakna upp spurningar um tengsl manns og náttúru. Maður og jörð eru samofin og mynda þannig jarðsamband sem miðlar verkinu. Maðurinn sem áhorfandi og hluti af heild er upphafspunktur upplifunar sem hverfist um hann.
Verkin eru unnin í framhaldi af sýningu sem Aðalheiður hélt í sal Íslenskrar grafíkur í Reykjavík síðastliðið vor og nefndist Leitin að óskasteininum. Þar var hugmyndin um óskasteininn tilefni til samtals við náttúruna. Samkvæmt gamalli þjóðtrú hafði óskasteinninn töframátt og gat uppfyllt óskir manna og þrár. Enn er leitað að óskasteininum um leið og nánasta umhverfi er skoðað. Aðalheiður leitar eftir litum formum og efniskennd í moldinni, gróðrinum og steinunum. Þannig verða málverkin til vegna beinna hughrifa frá umhverfinu í sveitinni þar sem jörðin og allt umhverfið kallar á athygli svo úr verða birtingarmyndir samtals manns og máttúru.
Aðalheiður Valgeirsdóttir lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1978 og BA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands 2011. Stundar nú MA nám í listfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur haldið fjölda sýninga hér á landi og erlendis. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistamanna og félaginu Íslensk grafík.
Nánari upplýsingar um sýninguna
Aðalheiður Valgeirsdóttir s. 6981184 og 5621303
ava@mmedia.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.