24.8.2012 | 10:51
Arsborealis - Mannlíf og menning Norðurslóða í Ketilhúsinu
Opnun í Ketilhúsi
miðvikudaginn 29. ágúst kl. 15.
Arsborealis Mannlíf og menning Norðurslóða
Þann 29. ágúst kl. 15. mun sýningin Arsborealis Mannlíf og menning Norðurslóða opna í Sjónlistamiðstöðinni Ketilhúsi og er sýningin liður í hátíðahöldum vegna 150 ára afmælis Akureyrarbæjar. Á sýningunni eru munir og efni frá Grænlandi, Íslandi, Færeyjum, Noregi og Norðvesturhéruðum Kanada.
Megintilgangur Arsborealis sýningarinnar er að kynna sögu, menningu og list þess fólks sem býr á Norðurslóðum og mannlíf sem lengst af var einangrað og í stöðugri baráttu við óblíð náttúruöfl. Sýndir verða þjóðbúningar landanna, handverk sem byggir á þjóðlegri hefð og kvikmyndir frá síðustu öld sem sýna vel þær ótrúlegu breytingar sem orðið hafa á þjóðum Norðurslóða en flestar hafa þær breyst úr veiðimannasamfélögum í nútíma, tæknivædd samfélög. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna sýninguna fyrir börnum og unglingum því til að varðveita menningu Norðurslóða er mikilvægt að kynna hana fyrir æskunni sem þar býr.
Frá Grænlandi kemur kajaksmiðurinn Johnson Maligiaq Padilla en hann lærði veiðar og kajaksmíðar af afa sínum og er einn fárra sem enn kunna að smíða kajaka með fornri aðferð Inúíta. Maligiaq mun smíða kajak á fyrstu tveimur vikum sýningarinnar, útskýra hvernig þeir eru byggðir og bera saman hinar ýmsu gerðir kajaka á Norðurslóðum en um það efni er hann sérfróður. Einnig verða sýndir grænlenskir skutlar, felubúnaður sem notaður var við veiðar úti á ísnum, útskurður úr sápusteini, horni og beini og klæði frá Uummannaq múmíunum sem eru frá 15. öld en fundust árið 1972.
Íslendingar leggja m.a. til fatnað úr ull sem gerður er með sömu aðferðum og notaðar voru fyrir 300 árum. Þetta er klæðnaður konu og barns sem er eins og hann tíðkaðist hjá efnameira fólki á 18. öld. Þá verða einnig sýnd leikföng úr dýrabeinum og skeljum eins og þau tíðkuðust fyrr á öldum og jólatré úr viði en jólatré þeirrar gerðar voru smíðuð víðsvegar um Norðurslóðir og þau síðan skreytt með lyngi og mosa.
Framlag Færeyja tengist grindadrápi en fyrir því er löng hefð í eyjunum og fastar reglur um hvernig á að fara með þessi hlunningi byggðanna og skiptingu kjötsins. Öll löndin leggja til þjóðbúninga, flíkur og muni sem eru úr hráefnum sem eru einkennandi fyrir landsvæðin og byggja á þjóðlegri hefð. Þá verða sýndar ljósmyndir Ragnars Axelssonar sem teknar eru á Norðurslóðum og ferðaþjónusta á Norðurslóðum verður kynnt á sýningunni.
Björn G. Björnsson hannaði sýninguna, Aðalsteinn Ingólfsson var listrænn ráðunautur en verkefnisstjóri er Reynir Adólfsson. Sjónlistamiðstöðin er opin alla daga vikunnar nema mánudaga og þriðjudaga frá 13 til 17 og aðgangur er ókeypis í boði Akureyrarbæjar en sýningunni lýkur 7. nóvember. Sýningin Arsborealis Mannlíf og menning Norðurslóða nýtur stuðnings frá Norræna menningarsjóðnum og NATA, ferðamálasamstarfi Íslands, Færeyja og Grænlands.
Sýningin stendur til 7. okt.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.