Guðrún Pálína opnar sýningu í Uglunni, Gamla barnaskólanum, Skógum í Fnjóskadal

palina_1165161.jpg

Sýning Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, Skólaskylda, opnar 3. ágúst kl. 14 í Uglunni, Gamla barnaskólanum, Skógum í Fnjóskadal.

Sýningin er röð andlitsmynda af börnum máluð með akryllitum á málaradúk. Öll eiga börnin það sameiginlegt að fyrr en síðar hefst þeirra skólaganga og mun hún væntanlega verða sumum þeirra til farsældar og gleði en öðrum erfið. Áhorfandinn getur sjálfur viðrað eigin tilfinningar gagnvart skólagöngu sinni og annarra við að skoða myndirnar og dvelja um leið í umhverfi sem var menntastofnun barna.

Vonandi vekur sýningin og umhverfið upp spurningar og hugmyndir tengdar skólaskyldu, fræðslu og þekkingaröflun annars vegar og hins vegar umhugsun um skammsýni, fáfræði og heimóttarhátt, sem vel getur verið til staðar hjá vel upplýstum og menntuðum þjóðum.
Þá koma upp ýmsar siðferðilegar spurningar tengdar menntun, þekkingu, völdum og þurfa Íslendingar ekki að fara nema til ársins 2008 til að rifja upp hvernig hámenntaðir og vinnusamir menn ráku efnahag landsins síns í þrot. Gætu kennsluhættir fyrri ára og viska Uglunnar orðið okkur innblástur til að finna leiðir sem gefa raunverulega menntun?

Myndlistarmaðurinn Guðrún Pálína Guðmundsdóttir er menntuð í myndlist frá Íslandi, Svíþjóð og Hollandi. Hún er búsett og starfandi á Akureyri og hefur haft fjölda sýninga síðustu tuttugu og fimm árin. Hún er einnig menntaður myndlistarkennari og hefur mest megnis fengist við slíka kennslu hérlendis og í Svíþjóð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband