Akureyrarörninn í Listasafninu

akorn_box.jpg
 
Góði gamli Akureyrarörninn er sko engin smásál. Þetta er sjálfur fuglinn Fönix, gammurinn mikli, með feiknarlegt vænghaf sem nær þvert yfir Eyjafjörðinn. Hann er tígulega ættaður úr íslenska skjaldarmerkinu og undir lok síðasta árs fæddist sú hugmynd í félagsmiðstöð „heldri borgara“ í Viðilundi og Bugðusíðu á Akureyri að gera bænum eitthvað glæsilegt til heiðurs á 150 ára afmælinu. Braust þá út agnarlítill goggur úr egginu og mörgum mánuðum síðar kom í ljós undurfagurt veggteppi úr hekluðum og prjónuðum mósaíkbútum, þar sem hver eining, samtals 3107 talsins, táknaði ólíka einstaklinga. Fæðingin heppnaðist sérlega vel, en afkvæmið var afhjúpað í félagsmiðstöðinni í vor. Örninn sest nú að yfir sumartímann í anddyri Listasafnsins á Akureyri. Verkið er unnið eftir hátíðarútgáfu af skjaldarmerki Akureyrarbæjar, en um það gilda sérstakar birtingareglur.

Efnt verður til samfagnaðar sunnudaginn 24. mars, kl. 15, og eru allir velkomnir, og þá sérstaklega hinir þroskuðu listamenn. Séra Hannes Örn Blandon og Hannes Sigurðsson sjónlistastjóri munu flytja hugvekjur í Ketilhúsi, við söng og bænalestur, en að því loknu leiða sr. Hannes og Hannes hópinn upp í Listasafnið til að votta þessum heilaga fugli virðingu sína. Linda Björk Óladóttir, listamaður og leiðbeinandi í handverki og listum, sá um að vinna tæknilegan undirbúning og hafði listræna umsjón með verkinu. Auk hennar komu Dóra Herbertsdóttir og Guðrún Heiða Kristjánsdóttir að hugmyndavinnu og verkefnastjórnun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband