21.3.2012 | 17:15
Kristinn E. Hrafnsson sýnir í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 24. mars klukkan 15 opnar Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður einkasýninguna MISVÍSUN í Listasafninu á Akureyri á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar.
MISVÍSUN er lýsandi orð fyrir það sem má kalla stöðuga óvissu eða sífellda hreyfingu allra hluta. Sem yfirskrift sýningar má túlka það sem svo að sýningin, eða verkin á henni, feli í sér ákveðnar mótsagnir og að hún sé ekki öll þar sem hún er séð. Verkin eigi sér að minnsta kosti tvær hliðar.
Á sýningunni Misvísun finnur Kristinn hugmyndum sínum efnislegt form í skúlptúrum, pappírsverkum og innsetningum. Verkin eru ólík að stærð og gerð en þau fjalla öll að einhverju leiti um heiminn og viðleitni mannsins til þess að staðsetja sig í honum. Stærsta verk sýningarinnar er 100 metra langt járnrör sem skrúfað var upp í gríðarstóran gorm sem umlykur allt safnið. Sýningargestir verða þannig þátttakendur í verkinu og geta upplifað það með því að ganga í gegn um það eða horfa á það utan frá. Í minnsta verki sýningarinnar býr mikil nálægð. Verkið er samsett úr áttavita og leiðarsteini (magnetite). Með smáan steininn í hendi sér geta sýningargestir snúið áttavitanum eins og þeim sýnist og fundið þá miklu krafta sem eru allt í kring um okkur. Sýningin er þannig ákveðin myndlíking fyrir lífið sjálft þar sem sýningargestir leitast við að staðsetja sig, skoða, njóta, taka afstöðu og jafnvel skapa eigin misvísun.
Kristinn er fæddur á Ólafsfirði árið 1960 og stundaði myndlistarnám við Myndlistaskólann á Akureyri 19821983. Hann útskrifaðist úr Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1986 og stundaði framhaldsnám í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi á árunum 19861990. Kristinn hefur haldið 17 einkasýningar og tekið þátt í um 50 samsýningum heima og erlendis. Hann á verk í öllum helstu listasöfnum á Íslandi og einkasöfnum á Íslandi og erlendis. Hann á einnig verk í fjölda opinberra stofnana og í almenningsrými víða um land.
Sýningin stendur yfir frá 24. mars 13. maí og er opin miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 13-17.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.