7.3.2012 | 19:51
Sýningarlok í Listasafninu og Ketilhúsinu
Nú er runnin upp síðasta vika sýninga bæði í Listasafninu og Ketilhúsi. Sýningarnar tvær eru ólíkar en á milli þeirra liggja þó margvíslegir þræðir. Á báðum sýningum er teflt saman listamönnum í yngri kantinum og vangaveltum þeirra sem eru þó alls ólíkar. Það er spennandi að fá innsýn í sköpun og hugarheim ungra listamanna og sjá gróskumikla hugmyndavinnslu og skapandi anda ráða ríkjum í sölum Sjónlistamiðstöðvarinnar.
Sýningin í Listasafninu ber nafnið Rými málverksins og það er Einar Garibaldi Eiríksson sem er sýningarstjóri. Einar hefur um árabil verið prófessor við Listaháskóla Íslands og hans hugmynd var að setja saman fjölbreyttan hóp listamanna sem sýndi víðtæka nálgun á viðfangsefnið sem var að hugsa út fyrir hið hefðbundna málverk, í efnisvali, framsetningu og myndmáli. Listamennirnir tólf eiga það sammerkt að hafa allir útskrifast frá Listaháskóla Íslands á síðustu tíu árum og það er óhætt að segja að vel hefur tekist við að ná markmiðinu um víðtæka nálgun því verkin eru ákaflega ólík og unnið er með fjölbreytileg efni og útfærslur.
Sýningin í Ketilhúsi nefnist Móbergur Rafsteinn Sæmunkur og er samsýning þriggja ungra myndlistarmanna sem hafa unnið saman í ýmsum verkefnum síðustu árin. Bakgrunnur þeirra er ólíkur hvað varðar myndlistarmenntun og hver fyrir sig skapa þeir sinn hugmyndaheim en eiga um leið sterkan samhljóm. Þeir sækja allir innblástur sinn til annarra heima, fornra leyndardóma og trúarbragða og útkoman er kyngimagnað andrúmsloft fortíðar, nútíðar og framtíðar.
Sjónlistamiðstöðin hvetur Akureyringa og gesti bæjarins til að missa ekki af þessu tækifæri til að opna hugann fyrir myndlist út fyrir rammann.
Nánari upplýsingar veitir
Sóley Björk, safnfulltrúi
461-2610 eða 844-1555
sjonlist@sjonlist.is
Sjónlistamiðstöðin - Listasafn
Kaupvangsstræti 12
600 Akureyri
Sími: +354 461 2610
GSM: +354 844 1555
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.