28.2.2012 | 13:35
Guðrún Pálína opnar myndlistarsýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri
Fimmtudaginn 1. mars kl. 16.00 18.00 mun Guðrún Pálína opna myndlistarsýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri.
Sýning Guðrúnar Pálínu er opin mánudaga og miðvikudaga frá kl. 8.00 16.00, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 8.00 18.00 og stendur til 30. mars.
Sýningin er sú fjórða og síðasta í ættfræði-seríu sem Guðrún Pálína hefur unnið að síðustu árin og sýnt á Akureyri. Sýningin í Bókasafni Háskólans á Akureyri ber nafnið Maður fram af manni og fjallar um ættir móðurafa Guðrúnar Pálínu, Höskuldar Tryggvasonar frá Víðikeri í Bárðardal. Sýningin samanstendur af 8 litríkum málverkum á tréplötum sem hvíla á gólfi og hallast að veggjunum. Það er von Guðrúnar Pálínu að sýningin veki áhuga áhorfandans á eigin ættarsögu. Bak við hvern einstakling er líf og erfðaefni margra forfeðra og formæðra sem hafa áhrif á hver við erum og hvað við gerum.
Guðrún Pálína stundaði listnám í Hollandi og sótti námskeið í grafískri hönnun í eitt ár við Myndlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, bæði á Íslandi og erlendis. Guðrún Pálína rekur ásamt eiginmanni sínum, Joris Rademaker, listgalleríið Gallerí+ á Akureyri.
Allir eru velkomnir.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 29.2.2012 kl. 21:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.