Listumfjöllun um sýningu Sigrúnar Guðmundsdóttur

img_6741.jpg

Listumfjöllun - gagnrýni    
Akureyri. 5. desember 2011. Pálína Guðmundsdóttir skrifar.


Sigrún Guðmundsdóttir, sýningin Ókyrrð, 26 og 27. nóvember 2011, í Populus Tremula, Listagilinu á Akureyri. Sigrún dvelur í gestavinnustofunni í Listagilinu í nóvember og desember.

Sigrún er Reykvíkingur og  fædd 1980. Hún nam myndlist í AKI listaakademíunni í Enschede í Hollandi á árunum 2004-2008. Á þeim námstíma fór hún 2007 í skiptinám til Boston og nam bæði myndlist og tónlist. Sigrún er starfandi myndlistarmaður í Rotterdam í Hollandi en þar spilar hún einnig í hljómsveit. Hún skrifar líka og notar texta í list sinni og áður dansaði hún. Listsköpun hennar hefur því ýmsa snertifleti sem á einn eða annan hátt eru sýnilegir í myndverkum hennar. Hún var ár í tveimur mismunandi lýðháskólum í Danmörku og þróaði þar margvísleg listform áður en hún  flutti sig suður og hóf nám í AKI.
Hún vakti strax athygli á lokaprófinu og í framhaldi af því buðust henni sýningar víðsvegar um Holland. Hún var líka tilnefnd til tvennra verðlauna. Síðustu þrjú árin hefur hún verið á hollenskum listamannalaunum sem hefur gert henni mögulegt að þróa listina og fagleg vinnubrögð enn frekar.

 Myndverk hennar eru samfélagsgagnrýnin og sérhver hluti  þeirra partur af stærri heild. Á heimasíðu Sigrúnar, www.sigrun.eu eru textar á ensku og hollensku um list hennar, ljósmyndir, video og performansa (gjörninga) sem gefur góða innsýn í myndverk hennar  og listræna þróun. Neyslusamfélagið, sjálfsmyndin, stress og fornir tímar, er uppistaðan í hugmyndafræði hennar. Einnig lyfjaiðnaðurinn og hve ginkeypt og gangnrýnislaus við erum fyrir honum, í örvæntingu okkar og von um bata og betri heilsu. Græðgi, klámvæðing og efnishyggja skjóta upp kollinum í myndverkunum og sýnir hún hina spaugilegu hlið þess. Hún notar ýmis ólík efni eins og súkkulaði, matvöru, lyfjaumbúðir og textílefni ásamt ljósmyndum og vídeói.

 Sýning Sigrúnar í Populus Tremula samanstendur af mismunandi hlutum sem saman mynda góða ljóðræna heild. Sýningin er sérstaklega gerð fyrir rýmið og hentar því mjög vel. Lykilverk sýningarinnar eru syndapokarnir á gólfinu en þjóðsagan sem liggur til grunna sýningarinnar er af syndugum presti og slunginni kerlingu. Saga sem Sigrún rakst á á Amtbókasafninu einn daginn.
 Eitt myndverkið er ljósmyndasería af gluggaröðum háhýsa í Rotterdam og pilluumbúðir inn á milli. Hugsun alkemistanna “svo inni svo úti, svo uppi svo niðri” skýtur upp í kollinn á manni þegar maður skoðar verkið. Hugsunin læðist að manni hvort umhverfið geri manninn veikan eða innri veikindi skapi einsleitt og staðlað umhverfi. Háhýsin í Rotterdam eru víðs fjarri gömlu niðurnýddu íslensku sveitabýli sem sést á einni myndinni á heimasíðunni, og hefur verið viðfangsefni hennar áður.
Á sýningunni Ókyrrð eru fyrrnefndar myndir, lítill skúlptúr af spilaborg byggðri úr greiðslukortum, teikningar úr gömlum ævintýrum á trébúta, og svo umfangsmesta verkið sem er í raun einhverskonar innsetning. Það er með mörgum svörtum taupokum úttroðnum af syndum fólks á pappírsmiðum, liggjandi á gólfinu með tilheyrandi textaverkum á tveimur veggjum. Annar textinn er lítil teikning og leiðbeiningar í Facebookleikja stíl þar sem á að  ýta á “like” og þú gætir verið dregin út sem sá heppni sem fær einhverskonar syndaaflausn. Í nútímanum  og neyslusamfélaginu erum við alltaf annaðhvort rosalega heppin eða óheppin, við ýmist græðum eða töpum í takt við fjármálaspilaborgina. Flestir hlutir eru gerðir að einhverskonar leikjum í hámarki yfirborðsmennskunnar, þar sem fáir eru svo útvaldir til að græða eitthvað. Allt er svo rosalega gaman og léttvægt. Hinn textinn er gömul þjóðsaga um syndugan prest enda tilheyrir stærsti pokinn honum.  Þetta leiðir snarlega hugann til stjórnenda fjármálafyrirtækja sem áttu að gæta fjármála landsmanna með góðu fordæmi, einnig minnist maður alls sem tengt er biskupsmálinu. Á tré teikningunum sjáum við meðal annarra keisarann í sínum nýju fötum enda fjármálablekkingar hluti neyslusamfélagsins. Á annarri mynd er einhver búinn að hengja sig upp í tré, einhver sem hefur tapað miklu kannski bæði fé og eða ærunni eða þá er mjög syndugur. Gleði og sorgir fólks, lævísi og svik tjáir Sigrún í þessum gömlu ævintýrafígúrum sem við þekkjum flest úr uppvextinum og eru samofin því samfélagi sem við erum vaxin úr, hinn vestræni heimur. Áhorfandanum gefst tækifæri til að skrifa upp syndir sínar og stinga í pokann og taka þátt í leiknum, með von um syndaaflausn. Þarna kallast margir þættir og hugmyndir á og auðvelt væri að klúðra því í of miklum frásögnum eða smáatriðum en Sigrún leysir þetta lista vel og af einstöku næmi, hún veit  nákvæmlega hvar hver hlutur á að vera og í hvaða hlutföllum. Hún hefur sem fyrr segir  dansað og því þroskað rýmistilfinninguna og þróað hreyfingar sínar og hve langt líkaminn nær að teygja sig áður en jafnvægið raskast. Hún er líka tónlistakona og fannst mér hvorutveggja komst til skila í sýningunni. Hún var lifandi eins og á hreyfingu og með góðan hrynjanda. Sýningin var eins og samofið tónfall þess forna og því nútímalega og firrta. Hvert framhaldið verður í heiminum fer náttúrlega eftir siðferði okkar og syndum.

sigrun2.jpg

Þó sýningin hafi verið einstök upplifun margra þátta þá gæti maður vel hugsað sér hluta hennar tekna út og unnið frekar með þá í nýju samhengi. Sigrún hefur einstaka efnistilfinningu og saumar syndapokana úr efnispjötlu sem einhver hafði skilið eftir í vinnustofunni, og gerir það af sömu nákvæmni eins og um saum á alvöru presthempu væri að ræða. Hver tala, hvert spor allt úthugsað og framkvæmt af stökustu nákvæmni og yfirvegun. Þarna fékk efnisbúturinn nýtt og virðulegt hlutverk  alveg eins og tómt pilluspjaldið.

Sýningin hafði vissa glaðværð, léttleika og fegurð yfir sér þrátt fyrir þungan boðskap og skerandi ádeilu. Ádeilan var ekki bara á umhverfið, þá sem ráða, bankamenn, kirkjunnar herra og alla hina, heldur ekki síður á okkur sjálf og hvaða syndir við berum með okkur. Það er vísað til ábyrgðar einstaklingsins ekki síður en þeirra sem prenta og gefa út greiðslukortin, það erum við sem notum þau og eyðum. Þarna er eins og skollinn bíti í skottið á sjálfum sér.
Svörtu tauskúlptúrarnir á gólfinu voru einir og sér efniviður heillar sýningar en þó hugsanlega heldur hefðbundið form. Styrkur listakonunnar er einmitt allir þessir hæfileikar hennar og margþættu skilaboð sem hún setur fram í mismunandi efnum og efnivið. Sem áður segir þá  skrifar hún tölvert, dansar, spilar músík og vinnur myndlist í mismunandi efni og öll jafn vel, það væri því auðveld leið til að færast of mikið í fang og missa fókusinn, en henni tekst að halda utan um þetta allt og er það þessi samþættig sem er aðal styrkurinn og eitthvað sérstakt út yfir það sem margir aðrir listamenn gera. Það er fjölhæfnin á mörgum sviðum sem fremst skilur hana frá öðrum.

sigrun3.jpg

Sex manns tjáðu sig um sýninguna eftir á, þrír karla og þrjár konur. Tveir Hollendingar, tveir  Íslendingar og tveir  hollenskir Íslendingar. Viðmælendurnir voru á aldrinum 19 - 83 ára.
Viðmælandi 1: Skemmtileg sýning. Hafði gaman af henni, sálnapokarnir tóku sig vel út á gólfinu.
Viðmælandi 2: Fyrst fannst mér sýningin sundurlaus en þegar ég las textann sem fylgdi þá fannst mér allt passa vel saman. Flott sýning.
Viðmælandi 3: Sýningin kom mér skemmtilega á óvart. Ljósmyndirnar frá húsunum í Rotterdam voru flottar og kallast svo skemmtilega á við gólfverkið og syndirnar.
Viðmælandi 4: Sumt var flott og svolítið fyndið t.d. gluggarnir í Rotterdam og syndapokarnir  
Viðmælandi 5: Rosalega flott sýning og áhugaverðar pælingar með að þeir sem eiga að vera syndlausir eru þeir sem syndga mest. Einnig hvernig hún vann sýninguna inn í rýmið t.d. hvernig pilluspjaldið endurspeglaði rýmið formlega séð. Góð heild.
Viðmælandi 6: Mjög góð sýning, skemmtilegt hvernig hún nær að tvinna saman sínum íslenska bakgrunni við hollenskt samfélag.

Styrkur listakonunnar eru þessi margþættu skilaboð og samþætting mismunandi efna og sjónarhorna í heilstæða ljóðræna mynd. Beitt samfélagsgagnrýni og skop.

Pálína Guðmundsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband