6.12.2011 | 10:51
Bækur og bókverk í Flóru
jólaBÓKAflóra
fimmtudaginn 8. desember 2011
í Flóru, Listagilinu á Akureyri
Allan fimmtudaginn þann 8. desember n.k. verður Flóra með opið fyrir gesti og gangandi að kíkja á jólaBÓKAflóru, en á boðstólnum verða bæði nýútkomnar og sérvaldar eldri bækur. Í tengslum við jólaBÓKAflóruna verða Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir með kynningu á þremur bókverkum sem þau hafa verið að vinna að, en bókakynningin er unnin í tengslum við sýninguna Nú á ég hvergi heima sem þau Hjálmar og Jóna opna nk. laugardag í Populus Tremula. Tvö bókverkanna sem þau verða með í Flóru koma nú út í takmörkuðu upplagi en það þriðja verður eingöngu til sýnis í bili, en það er enn í vinnslu.
Fyrri tvö bókverkin hafa þau Hjálmar og Jóna unnið í sameiningu. Um er að ræða annars vegar texta sem Hjálmar bjó til fyrir Jónu undir áhrifum frá verkinu Byltingin var gagnslaus og inniheldur 20 athugasemdir við þann verktitil. Seinna bókverkið inniheldur orð sem hafa verið skorin í lituð blöð, sem er tækni sem Jóna hefur verið að nota í ýmis verk. Orðin eru nokkur vel valin lýsingarorð og titill verksins er Geggjað brjálað sjúklegt æði. Í raun er þetta byggt á enn eldra verki sem þau unnu saman árið 2005 fyrst, en hafa alltaf verið að bíða að koma frá sér með einhverjum hætti.
Síðasta verkið sem ekki kemur út núna, en verður til sýnis, er bók með einu ljóði sem heitir Myrkur eða 7 skuggar og Chopin. Þar hefur Jóna verið að vinna myndskreytingar við textabrot og nálgunin verið sú að reyna að búa til sl. myndljóð eða finna leið til að gera myndljóð.
Bókakynningin Hjálmars og Jónu hefst klukkan 20.
Bækurnar verða svo til sýnis í Flóru um helgina sem hér segir:
föstudag 10-18, laugardag og sunnudag 14-17.


Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar. Svo skemmtilega vill til að Snorri sýnir einmitt í viðburðarrými Flóru þessar vikurnar og verður sýning hans auðvitað opin gestum og gangandi á jólaBÓKAflórunni.
Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri
Nánari upplýsingar veitir Kristín Þóra Kjartansdóttir í síma 6610168

Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bækur, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.