3.11.2011 | 13:54
Listasafnið á Akureyri: Sýning um sýningarnar 1999-2011
Um áramótin verða þáttaskil í sögu Listagilsins á Akureyri þegar ný menningarmiðstöð á sviði sjónlista tekur til starfa. Ákveðið hefur verið að sameina Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili, sem m.a. hefur haft umsjón með Ketilhúsi og Deiglunni, í eina stofnun sem fengið hefur nafnið Sjónlistamiðstöðin. Framvegis verður vísað til Listasafnsins eða Ketilhúss í Sjónlistamiðstöðinni eftir því hvar viðburðirnir eiga sér stað og mun miðstöðin heyra undir Akureyrarbæ. Af þessu tilefni verður litið yfir farinn veg hjá Listasafninu á viðburðaríkum áratug 21. aldar til að draga upp heildstæða mynd af starfseminni á umræddu tímabili. Þessi upprifjun samanstendur af plakötum,
upplýsingum um sýningarnar, marvíslegum viðbrögðum við þeim úr fjölmiðlum og útgefnu efni safnsins, en alls eru (sjálfstæðar) sýningar orðnar 95 talsins. Þá gefst gestum kostur á að eignast ókeypis margar bækur og sýningarskrár frá liðinni tíð meðan birgðir endast. Þessi sýning um sýningarnar verður opnuð laugardaginn 5. nóvember kl. 12 og stendur út mánuðinn, eða til sunnudagsins 4. desember. Aðgangur í Listasafnið á Akureyri er ókeypis eins og verið hefur frá haustinu 2008.
Í framhaldinu verður efnt til málþings um stöðu og framtíðarhorfur í Listagilinu sem fram fer í Ketilhúsi laugardaginn 19. nóvember og hefst það kl. 12. Reykvíski myndistarmaðurinn og heimspekingurinn dr. Hlynur Helgason mun í byrjun fjalla um hvernig sýningarhald Listasafnsins kemur honum fyrir sjónir, sérstöðu þess og áhrif í víðara samhengi safnaflórunnar og velta fyrir sér hvernig málin gætu þróast með tilkomu Sjónlistamiðstöðvarinnar. Að því loknu hefjast almennar umræður. Ekki verður um nein önnur framsöguerindi að ræða heldur boðið upp í hringborðsumræður til að hvetja sem flesta að láta í sér heyra. Fundarstjóri verður Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri Akureyrarstofu.
Ágrip af sögu safnsins síðastliðinn áratug
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Listasafnið á Akureyri opnaði fyrst dyr sínar á afmælisdegi bæjarins þann 28. ágúst 1993, en safnið er það eina sinnar tegundar sem með sanni má segja að tilheyri landsbyggðinni. Strax í upphafi var sá póll tekinn í hæðina að safnið skyldi að mestu helga sig samtímalist með hag íslenskrar myndlistar að leiðarjósi og leitast við að koma til móts við þá listamenn sem í bænum starfa ekki síður en gesti og gangandi. Áherslan hefur verið á sýningarhald, útgáfu og kynningu fremur en söfnun listaverka og hefur safnið átt stóran þátt í þeirri gríðarlegu grósku sem átt hefur sér stað í íslenskri myndlist undanfarinn áratug.
Í byrjun aldarinnar fór safnið að láta verulega til sín taka með afar fjölbreyttum sýningum sem ætlað var að höfða jafnt til innvígðra og almennings jafnframt því að taka öðrum þræði á brýnum samfélagslegum málefnum. Safnið markaði sér sérstöðu fyrir að vera oft djarft og fara ótroðnar slóðir um leið að það skapaði sér virðingarsess með öflugri útgáfustarfsemi og vandaðri framsetningu. Samhliða framsæknum þemasýningum og ýmis konar tilraunastarfsemi hefur verið fjallað um þróun íslenskrar myndlistar, meistara fyrri alda og fjarlæga menningarheima í því skyni að skoða samtímann með gagnrýnum augum og hliðsjón af sögunni, brjóta á bak fordóma og opna glugga til allra átta. Á þessum tíma hefur Listasafnið á Akureyri breyst úr litlu landsbyggðarsafni í landsþekkta stofnun sem í dag skipar sér á bekk með helstu listasöfnum þjóðarinnar. Þetta flaggskip Listagilsins hefur haft ómæld áhrif á aðra starfsemi í Gilinu svokölluðu og átt stóran þátt í því að treysta þá ímynd sem Akureyri hefur sem menningarbær.
Fyrir utan að gera íslenskri listasögu og samtímalist góð skil og varpa kastljósinu á marga framúrskarandi norðlenska listamenn hafa ýmsar af skærustu stjörnum hins alþjóðlega myndlistarheims haldið sýningar í safninu eins og t.d. Matthew Barney, Spencer Tunick, Boyle-fjölskyldan, Per Kirkeby, Zhang Xiaogang og Bill Viola, ásamt eldri meisturum á borð við Henri Cartier-Bresson, Goya og Rembrandt. Þá hefur Listasafnið átt í samstarfi við söfn, stofnanir, skóla, fyrirtæki og gallerí um víða veröld, meðal annars í Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Lettlandi, Rússlandi, Þýskalandi, Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Spáni, Jórdaníu, Indlandi, Japan, Kína og Bandaríkjunum. Þrátt fyrir þessi umsvif hafa einungis tveir fastir starfsmenn haft umsjón með Listasafninu, forstöðumaður og aðstoðarmaður hans.
Listsafnið hóf nýja öld með trukki og dýfu þegar 30 manna samsýning undir heitinu Losti 2000 var sett upp, en í vestursal gaf að líta einkasýningu Snorra Ásmundssonar, XXXReyri, sem setti verkefnið í áþreifanlegt samhengi. Losti 2000 gerði allt vitlaust í bænum og kannski engin furða með þrjár strippbúllur á nærliggjandi svæði á þessum tíma. Í kjölfarið kom tísku- og fatahönnunarsýningin Úr og í, 23 ungir íslenskir og finnskir hönnuðir og ljósmyndarar, og var í tengslum verkefnið haldin stærsta tískusýning sem sést hafði á Akureyri (2001). Skömmu síðar var boðið upp á þriggja tonna margmiðlunarsýninguna Detox í samvinnu við opinberu norsku myndlistarveituna Riksutstillinger í Osló, en þessi rosalega græjusýning vakti mikla kátínu skólabarna (2001).
Einnig er vert að nefna Við Signubakka, sýningar á verkum hins heimskunna franska ljósmyndara Henri Cartier-Bresson, í samvinnu við Magnum Photos í París (2001); danska samtímalistamanninn Per Kirkeby í samvinnu við Gallerie Michael Werner í Köln (fyrsta skiptið sem Kirkeby sýndi á Íslandi, 2001); Skipulagða hamingju: Rússnesk myndlist frá 1914-'56 í samvinnu við Fagurlistasafnið í Arkhangelsk (af því tilefni var reist eldrauð fánaborg fyrir ofan innganginn og ýmis slagorð öreiganna máluð með kýrillísku letri á veggi safnsins að innan, 2002) og Milli goðsagnar og veruleika; nútímalist frá arabaheiminum (verk frá 16 arabalöndum) í samvinnu við Konunglega listasafnið í Jórdaníu (2002). Hennar konunglega hátign Widjan Ali af Jórdaníu heimsótti Akureyri og voru þjónar á opnuninni klæddir í arabíska búninga. Frægust er þó arabasýningin kannski fyrir það, að hátalakerfi var komið fyrir ofan á turni safnsins og bærinn blastaður með íslömsku bænaákalli sex sinnum á dag. Fannst mörgum þetta súrrealísk upplifun og ríma verulega furðulega við klukknahringingar Akureyrarkirkju skáhalt á móti Listasafninu.
Mesta lukku allra sýninga í safninu fyrr og síðar vakti Rembrandt og samtíðarmenn hans í samvinnu við Heimslistasafnið í Ríga, Lettlandi, árið 2002. Næstum allur bærinn, um 12 þúsund manns, fór að skoða Rembrandt-sýninguna. Litu yfirmenn Heimlistasafnsins á þessa sýningu sem þakklætisvott Letta til Íslendinga fyrir hafa verið fyrstir þjóða að viðurkenna sjálfstæði þeirra eins og forseti landsins, Vaira Vike-Freiberga, undirstrikaði í þakklætisbréfi til safnsins. Aftökur og útrýmingar (2003) var aftur á móti í drungalegum dúr og skiptist í þrjá meginhluta: Hinstu máltíðir eftir Svisslendinginn Barböru Caveng (endurgerð á síðustu málsverðum dauðafanga í Bandaríkjunum frá 1992-2001); Aftökuherbergi eftir Bandaríkjamanninn Lucindu Devlin (hún var fulltrúi BNA á Feneyjartvíæringnum árið 2001) og Hitler og hommarnir eftir írskættaða myndlistarparið Peter McGoch og David McDermott (endurgerð á ímyndarórum þýska nasismans). Af því tilefni voru prentaðir bolir með nasistafánanum, nema í stað hakakrossins var lógó Listasafnsins sýnt á hlið og þar fyrir ofan og neðan stóð með gotnesku letri Listasafnið á Akureyri über alles til að árétta langvarandi baráttu safnsins fyrir því að fá efstu hæð hússins til umráða .
Ekki skyldi heldur gleyma Undir fíkjutré sem snerist um hindúisma og indverskar alþýðulistir (2003) og gerð var í samvinnu við Syracuse-háskóla, mannfræðideild Berkeley-háskóla, Sepia-galleríð á Manhattan og ýmsa staði í London, Delhi og Bombay. Sama ár var haldin sýning á Meisturum formsins í samvinnu við Ríkislistasafnið í Berlín (Nationalgalerie Berlin, 2003), en þetta var bókstaflega og listfræðilega algjör þungavigtarsýning 43 af mikilvægustu íslensku og alþjóðlegu skúlptúristum 20. aldar sett saman að hætti hússins. Rétt er einnig að minnast á Þjóð í mótun (2003) í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Á þeim tíma var Þjóðminjasafnið lokað vegna breytinga og flestar af dýrmætustustu perlum íslensku þjóðarinnar, sem sumar hverjar höfðu aldrei áður farið úr þess húsi, voru til sýnis í Listasafninu á Akureyri.
Settar voru upp stórsýningar eins og Kenjarnar (2004) eftir Francisco de Goya (d. 1828) í samvinnu við Calcografía National í Madrid. Þá sýndi safnið Allar heimsins konur (176 verk eftir 176 konur frá jafnmörgum löndum) og magnaða skúlptúra Boyle-fjölskyldunnar, Ferð að yfirborði jarðar (2004), sem opnuð var af eiginkonu þáverandi forsætisráðherra Bretlands Cherie Blair. Þótt þetta hafi verið einn af hápunktunum ekki aðeins vegna þess að fjölskyldan hóf að gera fullkomnar eftirlíkingar af blettum út um víða veröld fyrir sextíu árum og allt byrjaði það með blindu pílukasti á heimskortið sem lenti fyrst allra staða á Íslandi er ekki síður eftirminnilegt hvernig safnið var vaktað af bresku leyniþjónustunni og starfsmenn þess hundeltir af breskum papparössum frá Fleet Street sem vildu veiðu upp úr þeim fréttir af forsætisráðherrafrúnni.
Óvanalegasta sýningin verður að teljast Stríðsmenn hjartans; 100 milljónir í reiðu fé og tíbetskur munkasöngur (2005). Einsdæmi er að svo miklir fjármunir hafi verið sýndir í listasafni, enda var ekki hlaupið að því að lána svimandi upphæðir af notuðum peningaseðlum og láta tryggja alla dýrðina. Monningunum var komið fyrir á spottlýstum stöplum líkt og um fágæta mínimalíska skúlptúra væri að ræða, en á veggjunum voru ellefu ljósmyndir í fullri líkamsstærð eftir Íranann Ashkan Sahihi af venjulegu fólki í vímu á öllum helstu eiturlyfjum sem á markaðnum finnast í dag LSD, krakk, kókaín, alsæla, spítt, meskalín o.s.frv. þannig að skilaboðin fóru vart á milli mála.
Haustið 2005 lagði safnið fram hugmynd að stofnun Íslensku sjónlistaverðlaunanna, glæsilegustu uppskeruhátíð á þessu sviði sem haldin hefur verið á Íslandi. Að hátíðinni stóðu auk Akureyrarbæjar, Menntamálaráðuneytis og Iðnaðarráðuneytis Samband íslenskra myndlistarmanna, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Listaháskólinn og Form Íslands (samtök íslenskra hönnuða) og voru dómnefndir skipaðar af þessum lista- og kennslustofnunum. Sjónlistaverðlaunin samanstóðu af sýningu í Listasafninu, útgáfu vandaðrar sýningarskrár, alþjóðlegu málþingi og afhendingu Sjónlistaorðunnar fyrir besta árangur í annars vegar myndlist og hins vegar hönnun. Fram að þessu höfðu engin verðlaun verið veitt á Íslandi á sviði sjónlista sambærileg verðlaunaveitingum í bókmenntum, tónlist, leiklist og kvikmyndum. Með Íslensku sjónlistaverðlaununum var þess freistað að gera hlut sjónlistanna hærra undir höfði, en markmiðið með þeim var einkum þríþætt: 1) að beina sjónum að framúrskarandi framlagi íslenskra myndlistarmanna og hönnuða sem starfa hér heima og erlendis, 2) stuðla að aukinni þekkingu, áhuga og aðgengi almennings að sjónlistum og 3) hvetja til faglegrar þekkingarsköpunar og bættra starfsmöguleika sjónlistafólks á Íslandi. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem myndlist og hönnun var sameinuð með þessum hætti í heiminum. Fyrsta hátíðin var haldin haustið 2006, en alls voru Sjónlistarverðlauninn veitt þrisvar sinnum uns þau voru lögð niður í kjölfar efnahagshrunsins.
Á sýningunni Bersvæði (2006) eftir bandaríska ljósmyndarann Spencer Tunick, sem frægur er af endemum fyrir að fylla götur og torg út um allan heim með þúsundum strípalinga, má segja að safnið hafi berháttað sig. Í kjölfarið komu tvær gjörólíkar sýningar, önnur leitaði inn á við meðan hin blés í lúður Heimdalls til að vara við valdatöku fjármálaflanna, múgsturlun og yfirvofandi vistfræðilegu hruni. Fyrst kom Búdda er á Akureyri: Oft var zen en nú er nauðzen, sem skartaði m.a. einum merkasta videó-listamanni samtímans, Bill Viola, og snerist um búddisma og áhrif hans á viðkomandi listamenn. Og síðan kom Bæ-bæ Ísland; uppgjör við gamalt konsept sem var opnuð mánudaginn svarta, eða helgina fyrir skyndilegt 15 prósent fall krónunnar, þann 15. mars árið 2008. Fullyrða má að sýningin hafi stungið á fjármálabólunni sjö mánuðum áður en hún sprakk framan í andlit þjóðarinnar. Tuttugu og þrír af róttækustu samtímalistamönnum landsins lögðu flestir fram ný verk á sýninguna og var henni var fylgt úr hlaði með langri ádrepu sem birt er á heimasíðu Listasafnsins. Ætlunin var að gefa út stóra bók sem væri eitt allsherjar uppgjör við sögu lands og þjóðar, en þegar til kastanna kom var enginn reiðubúinn að baka brauðið. Ritgerðin lýsir ástandinu í þjóðfélaginu og því sem framundan bíður á heimsvísu með vægast sagt skuggalegum hætti og ber heitið Varúð vitundarmengun framundan: Svört skýrsla frá greiningardeild Listasafnsins á Akureyri.
Ennfremur skal minnast Orðs Guðs árið 2008, sem vakti upp áleitnar spurningar um ýmsa þætti kristinnar trúar, og Facing China (2008). Það segir sína sögu að verkin á Facing China voru send í 40 feta raka- og hitastilltum gámi (aðeins opnanlegur frá Hollandi með fjarlæsingu á innanverðum gámnum) og tryggð fyrir 1,7 milljarða króna. Þetta eru hæstu tryggingaverðmæti á sýningu sem safnið hefur haldið, en þau hafa oft skipt tugum og hundruðum milljóna króna.
Þannig kallast sýningarnar á milli ára og innan dagskrártímabila með margvíslegum hætti listsögulega, fagurfræðilega, guðfræðilega, kynjafræðilega, þematískt og pólitískt. Það er heldur engin tilviljun að síðasta sýning Listasafnsins í núverandi mynd, yfirlit á verkum Norðlendingsins Gústavs Geirs Bollasonar, bar titillinn Hýslar umbreytingarinnar.
Af mörgu öðru mætti taka, en þrátt fyrir að safnið hafi farið um víðan völl í gegnum tíðina hefur það aldrei misst sjónar á nærumhverfinu. Flestir af helstu myndlistarmönnum á eða frá Akureyri hafa sýnt í safninu, annað hvort á samsýningum t.d. Akureyri í myndlist I, samsýning 16 listamanna á Akureyri og Akureyri í myndlist II, samsýning 23 listamanna frá Akureyri eða einkasýningum, sem oftar en ekki hafa verið í öllu safninu: Hlynur Hallsson, Stefán Jónsson, Kristinn G. Jóhannsson, Jónas Viðar, Óli G. Jóhannsson, Jón Laxdal, Dröfn Friðfinnsdóttir, Guðmundur Ármann, Margrét Jónsdóttir, Joris Rademaker, Sigtryggur Baldvinsson, Kristín Gunnlaugsdóttir og Gústav Geir Bollason.
Öllum þessum einkasýningum hefur verið fylgt úr hlaði með vönduðum sýningarskrám og bókum. Eru þá ótaldar einkasýningar á verkum (annarra) landþekktra listamanna eins og Kristjáns Davíðssonar, Svavars Guðnasonar, Sigurjóns Ólafssonar, Eggert Péturssonar, Georgs Guðna Haukssonar, Helga Þorgils Friðjónssonar, Jóns Óskars, Huldu Hákon og Svövu Björnsdóttur, auk fjölmargra yfirlits- og samsýninga sem spanna alla íslenska listasögu 20. aldar og fyrsta áratug þeirra nýju.
Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Eins og áður segir lýkur sýningunni sunnudaginn 4. desember og er aðgangur ókeypis. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson forstöðumaður í síma 899-3386, netfang: hannes@art.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.