Guðmundur Ármann og Kristinn G. opna sýningu hjá Íslenskri grafík

img_4795.jpg  img_8834.jpg


Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Kristinn G. Jóhannsson opna
grafíksýninguna “Ristur” í sýningarsal “Íslenskrar grafíkur” í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, (hafnarmegin) í Reykjavík.  
Sýningin verður opnuð  laugardaginn 19. febrúar kl. 14.00 en verður síðan opin fimmtudaga til sunnudaga kl. 14.00- 18.00 og lýkur sunnudaginn 6. mars.

Kristinn G. Jóhannsson sýnir dúkristur og hefur um þær þessi orð: “ Ég hefi lengi verið aðdáandi einlægs handbragðs á smíðuðum, ofnum og prjónuðum hversdagshlutum, fordildarlausrar listar. Þar leitaði ég fanga. Skar í dúk mynstur ,sótt þangað, þrykkti á pappír og velti fyrir mér á ýmsa vegu.  Ég var alls óvanur dúkskurði og ekki sérlega handlaginn heldur, en niðurstaðan þessi.”
Kristinn G. Jóhannsson (1936) . Stúdent frá MA 1956 og lauk kennaraprófi 1962. Starfaði við kennslu og skólastjórn á Patreksfirði, Ólafsfirði og Akureyri í tæpa fjóra áratugi en hefur velt af sér þeim reiðingi.  Nam myndlist á Akureyri, Reykjavík og í Edinburgh College of Art.  Hann efndi til fyrstu  sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í  Reykjavík, í Bogasal Þjóðminjasafnsins,1962 og sama ár tók hann fyrsta sinni þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum. Hefur síðan sýnt oft og víða.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson sýnir tréristur.  Viðfangsefnið er sótt í náttúruna, hina síbreytilegu birtu sem ljær landinu, himninum, vatninu, fjöllunum og gróðrinum form, sem við nemum í umhverfinu.  Skynjun sem grópast í vitundina verður að minni sem  er viðmið í sköpunarferlinu. Myndirnar eru óhlutlægar þar sem hefðbundið mótíf er horfið og eftir standa lárétt form sem fljóta frjáls á myndfletinum og skapa skynjun sem vísar til náttúruupplifunar.  Ferlinu lýkur svo ekki fyrr en sýningargestir hafa skynjað myndirnar og lagt sinn dóm á hvernig til hefur tekist.
Guðmundur Ármann lauk námi í prentmyndasmíði  1962. Hóf myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962 og útskrifaðist úr málunardeild 1966.
Nám við Valand Konsthögskolan í Gautaborg 1967 og lauk þar námi í grafíkdeild 1972.
Kennararéttindanám við Háskólann á Akureyri 2003 og stundar nú meistaranám  í kennslu listgreina. Starfar sem kennari myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar Verkmenntaskálans á Akureyri. Er stundakennari við Háskólann á Akureyri.
Guðmundur Ármann sýndi fyrst í Mokkakaffi 1962, blekteikningar og kolteikningar.  Einkasýningarnar eru á þriðja tug, síðast í Norðurlandahúsinu, Færeyjum og í Gallerí Turpentín.
Hefur tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis , norrænum myndlistarverkefnum og alþjóðlegum grafíksýningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband