VARANLEGT AUGNABLIK Í LISTASAFNINU Á AKUREYRI

varanlegtaugnablik02.jpg


Laugardaginn 15. janúar 2011 opnar samsýning listamannanna Sigtryggs Baldvinssonar og Þorra Hringssonar í Listasafninu á Akureyri. Sýningin nefnist Varanlegt augnablik og hefur sterk tengsl við Norðurland, en báðir listamennirnir eiga þar rætur sínar.


Þorri Hringsson er fæddur í Reykjavík árið 1966 en er ættaður úr Haga í Aðaldal í Þingeyjarsýslum. Þorri stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck-akademíuna í Maastricht. Hann hefur tekið þátt í ríflega 40 samsýningum og haldið yfir 20 einkasýningar á Íslandi og erlendis.


Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri 1966. Hann nam við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Ecole des Arts Décoratifs í Frakklandi. Hann hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis.


Sigtryggur og Þorri hafa hvor sína hugmyndina um málverkið sem  eiga það þó sameiginlegt að snúast um samband þess við ytri veruleika. Báðir styðjast við ljósmyndir en Sigtryggur Bjarni forvinnur verk sín í tölvu þar sem hann mótar myndina á meðan Þorri málar beint á strigann þar sem sjálf myndin verður til. Þessar ólíku aðferðir gera það að verkum að þótt einstök málverk beri með sér ákveðið svipmót eru þau býsna ólík við nánari skoðun. Hér er verið að vísa í verk sem sýna lygnan flöt í skugga árbakka og spegilmynd af skýjaslæðum eða nærmynd af gáruðu vatnsyfirborði. Ef við lítum upp frá þessum verkum og skoðum heildarverk hvors um sig á sýningunni í Listasafninu á Akureyri, sjáum við að forsendur þessara áþekku niðurstaðna eru gerólíkar en líkindin má rekja til hins ytri veruleika sem verkin byggja á.  


Sýningin stendur til 6. mars 2011.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband