Hugi Hlynsson og Júlía Runólfsdóttir
It's like living in your own world
04.12.10 - 07.01.11
Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755
Hugi Hlynsson og Júlía Runólfsdóttir opna sýninguna It's like living in your own world á Café Karólínu laugardaginn 4. desember kl. 15:00. Sýningin stendur til 8. janúar 2011 og eru allir velkomnir. Þetta er síðasta sýningin á Café Karólínu í bili en þar hafa verið reglulegar sýningar frá opnun árið 1993.
Sýningin samanstendur af svart/hvítum ljósmyndum. Myndirnar eru teknar við að hausti til við Mývatn og sýna vatnið og umhverfi þess við einstakar aðstæður. Hitinn við vatnið er rétt yfir frostmarki, það er algjör kyrrð og þoka, einstaka vatnsdropar falla á vatnið. Vatnið er spegilslétt og þögnin er nánast yfirþyrmandi, náttúran hefur öll völd.
Myndirnar voru fyrst sýndar við opnun listahátíðarinnar Jónsvöku sumarið 2010 og er þetta annað skiptið sem þær eru á sýningu.
Júlía Runólfsdóttir er 17 ára gamall nemi frá Reykjavík með ást á þríhyrningum, flæðandi formum og skuggum. Hún stundar nám við Menntaskólann við Hamrahlíð og einnig við Myndlistaskólann í Reykjavík. Júlía hefur haft áhuga á ljósmyndun síðan hún var bara barn og myndað af nokkurri alvöru síðastliðin ár. Hún tók þátt í alþjóðlegri ljósmyndabók fyrir ungmenni árið 2008 og myndir eftir hana hafa birst í ótalmörgum tímaritum og blöðum auk þess sem hún hélt sína fyrstu sýningu, með Huga Hlynssyni, í sumar.
Hugi er fæddur á Akureyri árið 1991 en fluttist tveggja ára til Þýskalands og bjó þar til átta ára aldurs þegar hann fluttist aftur til Akureyrar. Hugi hefur lengi haft áhuga á ljósmyndun og hefur á undanförnum árum reynt að marka sér beinni stefnu á áhugasviði sínu innan ljósmyndunar. Hugi er nemandi á náttúrufræðibraut VMA og stundar dulin ljóðaskrif ásamt áhuga-verkfræðimennsku til hliðar við ljósmyndunina.
Sjá einnig heimasíður Huga og Júlíu: hugihlynsson.com og juliarunolfs.com
Nánari upplýsingar veitir Hugi í síma 6633026 og í tölvupósti: hugihlynsson@gmail.com og Júlía í síma 8694456.
Café Karólína er opin frá kl. 17 og fram eftir nóttu alla daga nema laugardaga þá er opið frá kl. 15.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Ferðalög, Matur og drykkur, Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.