22.10.2010 | 23:38
PortrettNú! í Listasafninu á Akureyri
Þann 23. október n.k. opnar sýningin PortrettNú! í Listasafninu á Akureyri. Sýningin er unnin í samstarfi við Fredriksborgarsafn í Danmörku, en hér er á ferðinni samnorræn portrettsýning sem fyrst var sett upp árið 2008. Á sýningunni PortrettNú! er að finna verk frá öllum Norðurlöndunum og er öllum birtingarformum portrettlistarinnar gert jafn hátt undir höfði.
Portrettlist er yfirleitt ákveðin framsetning eða kynning á persónuleika einstaklings þar sem uppstilling og svipbrigði hafa mest um það að segja hvernig verkið er skynjað. Portrettið og sjálfsmyndin hefur samfélagslegt gildi, henni er ætlað að vera meira en aðeins hégómlegt prjál, enda væri þá nóg að horfa í spegil. Sjálfsmyndin er í raun eins konar staðsetning á sjálfinu innan samfélagsins. Fyrr á öldum létu menn oft mála af sér myndir og voru þær jafnvel eilítið fegraðar til að auka álit áhorfenda á fyrirsætunni.
Þegar við skoðum portrettmyndir unnar með nýjum miðlum miðlum þar sem stafrænar myndavélar og almennri tæknikunnáttu er beitt má sjá merkjanlega breytingu í portrettmyndagerð samtímalistarinnar. Allir geta tekið sjálfsmynd, en færri kunna að munda pensilinn og mála mynd af sjálfum sér. Við sjáum breytinguna frá hinu sérhæfða til hins almenna þegar við skoðum veraldarvefinn, netsíður sem ganga út á birtingu og umræður um ljósmyndir. Almenningur hefur öðlast skilning á myndbyggingu, dýpt, sjónarhorni og lýsingu sem lengi vel var sérgrein listamannsins. Þessi þróun gerir listina almennari og kallar á að listamenn leiti út fyrir skilgreind mörk listarinnar, eða hugi að nýjum leiðum í list sinni. Þessi minnkandi munur á listamönnum og leikmönnum hefur leitt til þess að faglært fólk hefur þurft að endurnýja þekkingu sína. Ólíkt máluðum portrettmyndum fyrri alda er alls ekki víst að ljósmynduð portrettmynd sé ávallt talin listaverk. Í raun er ekki um listaverk að ræða nema höfundurinn segi að svo sé og listaheimurinn samsinni því.
Að sýningu lokinni á Akureyri mun Portrett Nú! halda ferðalagi sínu áfram um Norðurlönd. Í janúar 2011 verður hún sett upp í Tikanojas konsthem í Vaasa í Finlandi. Þá taka Norðmenn við þar sem sýningin verður sett upp í Norsk Folkemuseum í Osló í apríl 2011.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.