22.7.2010 | 18:56
Reimleikar – húslestur frá 20. öld í Verksmiðjunni á Hjalteyri
Um helgina verður ljóðasýningin Reimleikar sett upp í Verksmiðjunni. Sýningin stendur yfir eina helgi frá 23. til 25. júlí. Á sýningunni er ljósi brugðið á íslenska ljóðlist, upptökur og upplestur. Þar sem gefnar hafa verið út á Íslandi með upplestri ljóðskálda, og þær settar upp til spilunar. Sýningin er í grunninn bókmenntasöguleg. Hægt verður að hlusta á skáld og skáldskap frá ólíkum tímabilum og hlusta sig þannig í gegnum íslenska ljóðlist 20. aldar. Sýningin býr einnig yfir mörgum lögum: hægt er að njóta raddanna og bera saman raddblæ skáldanna, hægt er að njóta ljóðanna, hægt er að njóta sögunnar sem býr í útgáfunni og upptökutækninni. Á endanum stendur áheyrandinn líka frammi fyrir spurningum um eðli upptökunnar og hins talaða orðs. Verksmiðjan sjálf á Hjalteyri skiptir sköpum fyrir sýninguna, tilkomumikill hljómburður hússins skapar sýningunni einstaka umgjörð. Enginn fær notið upplesturs sem hefur verið upptekinn, nema hann fari fram í húsi sem hæfir. Verksmiðjan er fullkomlega eyðilegur staður - hún leyfir fólki að hlusta eitt, sér og út af fyrir sig, þótt allir fái notið ljóðlistarinnar í sameiningu. Sýningin er önnur í röðinni af þremur sýningum sem tengjast bókmenningu og margmiðlun. Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Hjálmar Stefán Brynjólfsson setja upp sýninguna. Áður hafa þau dansað á mörkum bókmennta og myndlistar í sýningunni Bráðum áminning um möguleika gleymskunnar sem sett var upp í nóvember 2009 í GalleríBOX. Síðasta sýningin fer fram árið 2011.
Athugið: aðeins þessi eina helgi.
http://www.verksmidjan.blogspot.com
http://www.facebook.com/pages/Verksmidjan-a-Hjalteyri/92671772828?v=wall
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bækur, Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.