12.5.2010 | 21:27
straumur / burðarás - oddvitar íslenskrar harðkjarnalistar og leyndardómur listasafnsins
Sýningin í Listasafninu á Akureyri stendur í 3.722.400 sekúndur
eða frá 15. maí kl. 15 til 27. júní kl. 17.
Laugardaginn 15. maí kl. 15 verður sýningin Straumur/burðarás opnuð í Listasafninu á Akureyri. Myndlistarmennirnir sem verk eiga á henni eru Ingólfur Arnarsson, Ívar Brynjólfsson, Ívar Valgarðsson, Jón Laxdal Halldórsson og Kristján Guðmundsson. Sýningin, sem skartar í flestum tilvikum nýjum verkum eftir listamennina, fjallar öðrum þræði um naumhyggjuna og arfleið hennar á Íslandi í konseptlist og ljósmyndun og er hún hluti af Listahátíð í Reykjavík. Sýningarstjórar eru Hannes Sigurðsson og Birta Guðjónsdóttir, en í tengslum við sýninguna gefur safnið út lítið kver með sögulegri úttekt á naumhyggjunni eftir Hönnu Guðlaugu Guðmundsdóttur listfræðing.
Naumhyggja eða mínimalismi náði mikilli útbreiðslu í ólíkum listformum á sjöunda áratug tuttugustu aldar og hefur verið áberandi allt fram til dagsins í dag. Hið látlausa, hreina og ópersónulega skipaði stóran sess og hin knöppu form, stór eða smá að efni og gerð, urðu einkennandi stef í bragarhætti naumhyggjunnar. En þessi einfaldleiki er ávallt margbrotinn, listupplifun er á engan hátt fátæklegri í naumhugulli list.
Helstu kennismiðir naumhyggjunnar voru bandarískir listamenn, s.s. Donald Judd og Robert Morris, sem höfnuðu eldri fagurfræði og töldu að ofuráhersla á hið sjónræna og (frásagnarlegt) inntak verka hefði orðið of þýðingarmikið í myndlistarsögunni. Naumhyggjan felur í sér djúpstæða endurskoðun og skilgreiningu á hinu sjónræna og þar með listupplifun áhorfanda á myndlist. Módernisminn þótti innhverfur og snúast of mikið um fagurfræði og snillinga. Svar naumhyggjunnar var að leggja áherslu á heildina og fá hin nýju þrívíðu verk til að deila rýminu með áhorfandanum. En þrátt fyrir það virðist naumhyggjan og sú formhyggja sem þessir póstmódernistar aðhylltust vera beint framhald af módernismanum, ekki fullkomin andstæða hans eins og gjarnan er haldið fram.
Á Íslandi náði hugmyndalistin og naumhyggjan að festa sig í sessi hérlendis á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Myndlistarmennirnir Ingólfur Arnarsson, Ívar Brynjólfsson, Ívar Valgarðsson, Jón Laxdal Halldórsson og Kristján Guðmundsson eiga það sammerkt að vinna undir formerkjum naumhyggju og hugmyndalistar þrátt fyrir að vera á margan hátt nokkuð ólíkir listamenn. Fullyrða má að aldrei hafi sýning verið sett upp hérlendis undir merkjum naumhyggju á eins mínimalískan hátt og raun ber vitni; fá verk í konkret-ljóðrænni framsetningu minna engu að síður á hversu fyrirferðarmikil huglæg naumhyggja hefur verið í íslenskri myndlist síðustu áratugi.
Oft hefur verið gengið framhjá þeirri staðreynd að ljósmyndun átti stóran þátt í framgangi naumhyggju og hugmyndalistar á alþjóðlegum vettvangi. Á það ekki einungis við um myndlistarmenn, sem margir studdust við ljósmyndun, heldur fóru hinir eiginlegu ljósmyndarar að horfa öðrum augum á miðilinn. Hugmyndalegur skyldleiki kom í ljós þar sem greina má formfræðilegan kunningsskap með reglusniði naumhyggjunnar. En þrátt fyrir marga landvinninga ljósmyndalistarinnar innan myndlistar síðustu áratugi hafa landamærin oft á tíðum hvorki verið færð til né afmáð og mætti því frekar tala um jafnan búseturétt innan hinna ólíku miðla í myndlist. Tímahvörf í ljósmyndun urðu á áttunda og níunda áratugnum á Íslandi, eða um svipað leyti og naumhyggja og hugmyndalist urðu mjög ráðandi í íslenskri myndlist.
En að hve miklu leyti er birtingarmynd naumhyggjunnar annars vegar alþjóðleg og hins vegar þjóðleg? Hvað tengir hina ólíku íslensku mínimalista í myndlistinni? Hversu mikil áhrif höfðu hugmyndir naumhyggjunnar eins og þær voru t.d. settar fram af Íslandsvininum Donald Judd? Hin margbrotna naumhyggja býður upp á margar og ólíkar skilgreiningar sem snerta allt í senn hið þjóðlega eða staðbundna, samfélagsgerð okkar og Ísland sem hluta af vestrænum menningarheimi, trúarbrögðum og jafnvel stjórnmálahugmyndum.
Nánar er fjallað um sýninguna á slóðinni http://www.listasafn.akureyri.is/syningar/2010/straumur/ þar sem einnig má nálgast bókina.
Nánari upplýsingar má fá hjá Hannesi Sigurðssyni, forstöðumanni safnsins, í síma 461-2610, eða á netfanginu listasafn@akureyri.is.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bækur, Vefurinn | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.