29.4.2010 | 10:56
Eyfirski safnadagurinn 1. maí
Eyfirski safnadagurinn nýtur mikilla vinsælda
Vertu gestur í heimabyggð!
Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 1. maí. Hin síðari ár hefur þessi dagur notið mikilla vinsælda og hafa fjölskyldur og aðrir gestir nýtt tækifærið til að kynnast söfnunum á Akureyri og nágrenni, fræðast, skemmta sér og hitta mann og annan. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fjölbreyttum, skemmtilegum og áhugaverðum söfnum í Eyjafirði. Þau munu þennan dag kynna starfsemi sína og að þessu sinni verður megin áherslan á hús. Af því tilefni verður leiðsögn um Kirkjuhvol, húsnæði Minjasafnsins á Akureyri, spjall um húsvernd og húsakönnun auk þess sem gengið verður með leiðsögn frá Minjasafninu í Friðbjarnarhús og Gamla spítala. Á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík verður fjallað um hús og jarðskjalfta. Í Gamla bænum Laufási verður örsýning á fatnaði í anda hússins, frá u.þ.b. 1900 til 1930 Á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði verða öll þrjú safnahúsin opin auk þess sem stýrishús og lúkar Týs verður opið gestum og gangandi í fyrsta sinn, byggingariðnaður á liðinni öld verður kynntur á Iðnaðarsafninu og á Safnasafninu verður, auk fjölda sýninga, gjörningur Önnu Hallin og Olgu Bergmann. Auk þess bjóða söfnin uppá margt annað áhugavert þar má til dæmis nefna flug, kveðskap, leiðsögn, myndskreytingar og fyrirlestra.
Fjölbreytt safnaflóra
Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Davíðshús, Flugsafn Íslands, Friðbjarnarhús, Gamli spítalinn, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Hús hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Safnasafnið verður opið frá 14-18.
Safnarútur
Safnarúta 1: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 11
Fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Heimkoma um 13.30.
Safnarúta 2: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 13.30.
Fer á Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Gamla bæinn Laufás. Leiðsögumaður í ferðinni er Björn Ingólfsson. Heimkoma um 17.30.
Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16 á milli safnanna á Akureyri.
Verkefnið er afrakstur samstarfs safnafólks í Eyjafirði sem hefur unnið ötullega að því að styrkja og kynna safnastarf á Akureyri og í nágrenni. Í ár verður eyfirski safnadagurinn haldinn með pompi og prakt í fjórða sinn!
Dagskrá eyfirska safnadagsins í heild sinni má finna á slóðinni www.sofn.is
Tengiliðir: Arndís Bergsdóttir, Iðnaðarsafninu, s: 462 3600 & 699 0870 og Kristín Sóley Björnsdóttir, Minjasafninu á Akureyri, 846-5338.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.