6.2.2010 | 09:17
Nemendur Listhönnunardeildar Myndlistaskólans á Akureyri sýna í Safnahúsinu á Húsavík
MENNINGARRÁÐ EYÞINGS - MYNDLISTASKÓLINN Á AKUREYRI
Sýning á minjagripum og nytjaverkum nemenda í SAFNAHÚSINU Á HÚSAVÍK
Að frumkvæði Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur, menningarfulltrúa Eyþings, var ákveðið að ráðast í átak, sem stuðlað gæti að atvinnu- og nýsköpun á starfssvæði Eyþings. Afraksturinn var verkefnið Þingeyskt og þjóðlegt samstarf verkefnahópanna, Þingeyskt handverk á Kópaskeri, Þjóðlegum arfi og Svartárkoti-menningu, náttúru/Kiðagili, Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Myndlistaskólans á Akureyri. Verkefnið snerist um að hanna minjagripi og þjóðlega vöru sem dragi fram sérstöðu svæðanna í Þingeyjarsýslu með tilvísun til gripa á Byggðarsafni N. Þingeyinga og til Útilegumanna sýningar í Kiðagili.
Stofnað var til samstarfs við Myndlistaskólann á Akureyri með það að markmiði að fá inn í verkefnið faglega þekkingu á sviði hönnunar og jafnframt gefa nemendum tækifæri til að vinna að raunverulegu verkefni og auka þekkingu þeirra á menningu svæðisins. Leitast var við að nýta þá fagþekkingu sem er á svæðinu og var Brynja Baldursdóttir hönnuður og myndlistamaður fengin til að hafa umsjón fyrir hönd Myndlistaskólans. Hún er búsett á Siglufirði.
Formleg kennsla í grafískri hönnun hófst við Myndlistaskólann á Akureyri árið 1992 en fram að því hafði aðeins verið kennd grafísk hönnun við Myndlista og handíðaskóla Íslands frá 1961. Sú kennsla hélt áfram við Listaháskóla Íslands sem var stofnaður árið 1998. Oft er rætt um íslenska hönnun sem nýtt fyrirbæri en þó hafa íslenskir hönnuðir verið starfandi allt frá þriðja áratugnum. Íslensk hönnun hefur fylgt þróun menningar í landinu sem byggði á grunni sveitamenningar sem hefur þróast í átt að alheimsvæðingu. Íslensk hönnun er orðin útflutningsvara í æ ríkara mæli og stendur jafnfætis því besta sem gerist erlendis á sviði hönnunar. Það er farið að gæta sterkrar þjóðernisvitundar og hönnuðir sækja sér í auknum mæli innblástur í gömul munstur og hefð í handverki. Þegar er komin skemmtileg reynsla á samstarf af þessu tagi sem er vænlegt til árangurs. Má þar nefna samstarfsverkefni LHÍ og Beint frá Býli og áfanga í Listaháskólanum að frumkvæði Lilju Pálmadóttur að byggja framsækna hönnun á gripum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Það er skemmtileg viðbót að Myndlistaskólinn á Akureyri leggi sitt lóð á vogarskálarnar í vöruhönnun byggðri á þjóðlegum grunni og sérstöðu Þingeyjarsýslna. Útkoman er; fjölbreyttar hugmyndir sem eru vel til þess fallnar að fara í framleiðslu. Þetta samstarf styrkir samkeppnisstöðu og fjölbreytni í verðmætasköpun og bendir á vaxtarbrodda og möguleika svæðisins til nýsköpunar.
Sýningin er opin almenningi laugardaginn 6. febrúar 2010 kl. 13.00-17.00 og frá kl. 13.00-16.00 dagana 7. - 13. febrúar.
MENNINGARRÁÐ EYÞINGS - MYNDLISTASKÓLINN Á AKUREYRI
Vöruhönnun - Þingeyskt og þjóðlegt
Listhönnunardeild Myndlistaskólans á Akureyri - Grafísk hönnun Kennari: Brynja Baldursdóttir, hönnuður og myndlistarmaður
Sýnendur:
Berglind H Helgadóttir Dagrún Íris Sigmundsdóttir Heiða Erlingsdóttir Herdís Björk Þórðardóttir Helgi Vilberg Helgason Karen Lind Árnadóttir Sindri Smárason Unnur Jónsdóttir Bergný Sjöfn Sigurbjörnsdóttir Guðfinna Berg Stefánsdóttir Guðmundur Valur Viðarsson.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.