Joris Rademaker í Listasafninu á Akureyri

_mg_3353_951996.jpg

Laugardaginn 16. janúar klukkan 15 opnar Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum hollenska myndlistarmannsins Jorisar Rademaker. 

Joris er fæddur í smábænum Eersel í Hollandi árið 1958 en hefur búið á Íslandi í hartnær tvo áratugi. Hann hefur fengist við myndlist síðan árið 1983 og einnig starfað sem myndlistarkennari á Akureyri um árabil. Undanfarin ár hefur hann starfrækt Gallerí+ á Akureyri ásamt Pálínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Joris var útnefndur bæjarlistamaður Akureyrar árið 2006. 

Myndlist Jorisar spannar ólíkar stefnur og rífur skörð í þá múra sem eitt sinn stóðu fyrir kynslóðabil andstæðra fylkinga. Hann vinnur með hugsanaflæði, bæði tvívítt og þrívítt, og styðst við fundna hluti og látlausan efnivið. Í byrjun var pallettan sterk en smám saman hefur hún orðið nær litlaus. Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggja á formrænni einföldun sem á meira skylt við geómetríska abstraktsjón, eða De Stijl-skólann, og skynvilluleiki op-listarinnar en kaldrifjaða smættarhyggju. Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggaja á formrænni einföldun þar sem möguleikar skynjunar og alls konar skynvilluleikir ráða ferðinni.

Við fyrstu kynni virðist þessi myndheimur Jorisar frekar óaðgengilegur þótt reglulega bregði fyrir bernskum fígúrum og malerískum, expressjónískum hvellum. Inn í hann fléttast einnig tvö vinsæl viðfangsefni sem heltóku myndlistina á níunda og tíunda áratugnum, nefnilega líkamslist (e. body-art) og auðkennispólitík (e. identity politics). Verkin virka stundum eins og litlir, viðkvæmir púðluhundar sem allt í einu sýna í sér vígtennurnar og eru ótrúlega ógnandi. Sársaukinn tekur við þar sem votti af væmni sleppir, pipraður með áhrifum afrískrar ættbálkalistar í staðinn þess að saltað sé í sárið að norrænum fantasið (þessi skírskotun í afríska skúlptúra byggir þó á meiri innlifun en tíðkaðist hjá Cobra-mönnum).* List Jorisar hefur samt engar beinharðar pólitískar blammeringar að geyma eða samfélagsgreinandi gegnumlýsingu. Hún margsnýst í leit sinni að staðsetningu sjálfsins sem reif sig upp með rótum og endurkastast nú milli tveggja heima, Hollands og Íslands, þar sem Joris hefur búið. Stráhattur van Goghs og skólufsur flækingsins, sem dúkka stundum upp, minna okkur á að hann er aðkomumaður. 

Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið á Akureyri gefið út 90 blaðsíðna bók með ítarlegri umfjöllun um feril og list Jorisar eftir Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðing og Hannes Sigurðsson forstöðumann Listasafnsins á Akureyri.

Sýningin stendur til 7. mars 2010 og er opin alla daga nema mánudaga frá 12-17.

Frekari upplýsingar gefur Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í síma 899-3386

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband