27.8.2009 | 16:10
Kreppa og kærleikur - Nýir Íslendingar í nýju landi á Akureyrarvöku

Listasumar í samstarfi við Norrænu upplýsingaskrifstofuna og Alþjóðahús hafa
tekið höndum saman um verkefnið "Kreppa og kærleikur". Varpað er ljósi á
hér búandi listamenn af erlendum uppruna og vakin athygli á því hvernig þeir
hafa auðgað samfélag okkar með sínum störfum á listræna sviðinu í námi og
leik.
Hugmyndin varð til þegar Norræna upplýsingaskrifstofan sóttist eftir að fá
hingað til lands sýningu, danska ljósmyndarans Henrik Saxgren "Krig og
kærlighed", Stríð og ást, en sýningin hefur hlotið mikið lof. Það kynnti
einnig undir hugmyndina að hér er starfandi Alþjóðastofa og að Listasumri
bauðst sýning þeirra Ásthildar Jónsdóttur og Ásthildar Kjartansdóttur
"Lífsmunstur - Líf í nýju landi", en sú sýning fjallar um það, að á bak við
hvert andlit er flókið munstur tilfinninga og upplifana og að alls staðar má
finna sameiginlega þræði.
Sýning Ásthildanna verður sett upp í Deiglunni, en sýning Henrik Saxgren í
sal Ketilhússins. Á sýningunni í Ketilhúsinu verður hægt að skoða sögur 40
einstaklinga og fjölskyldna og ástæður þeirra fyrir flutningi frá
heimalandinu, en Henrik Saxgren ferðaðist um Norðurlöndin í fjögur ár og
myndaði fulltrúa rúmlega hundrað þjóðarbrota.
Alþjóðahús hefur fengið myndlistarmennina George Hollanders, Joris Rademaker
og Véronique Anne Germaine Legros til að setja upp samsýninguna Af hverju er
ég hér? á svölum Ketilhússins og tónlistarmennina Thiago Trinsi, Valmar
Väljaots, Wolfgang Sahr, Kaldo og Margot Kiis, Heimir Ingimarsson og fleiri
til að sjá um tónlistina á opnun sýninganna í Ketilhúsinu og Deiglunni.
Þá munu nokkrir útvaldir nýbúar á Akureyri, bæði af innlendu og erlendu
bergi brotnir, svara spurningunni "Af hverju ert þú hér?". Það fer þannig
fram að hver og einn verður merktur sérstaklega og eiga gestir og gangandi á
sýningunum að geta spurt þá spjörunum úr um tilvist þeirra á Akureyri.
Kreppa og kærleikur er síðasti viðburður á Listasumri 2009 og markar lok
Listasumars og afmæli Akureyrarbæjar á Akureyrarvöku þann 29. ágúst.
Dagskráin stendur frá kl. 14 til 18 og eru nánari upplýsingar um
tímasetningar inn á heimasíðu Listasumars www.listagil.akureyri.is
27.8.2009 | 10:30
Íslenskar ljósmyndir 1866–2009 opnuð í Listasafninu á Akureyri
Á Akureyrarvöku laugardaginn 29. ágúst kl. 15 verður sýningin Úrvalið: íslenskar ljósmyndir 18662009 opnuð í Listasafninu á Akureyri. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari hefur valið verk eftir þrettán kollega sína á sýninguna, og skrifar jafnframt um þá, sem og rökin fyrir vali sínu, í texta sem birtist í vandaðri sýningarskrá. Er þetta í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til þess að gefa markvisst yfirlit á einni sýningu yfir sögu skapandi ljósmyndunar hér á landi, frá upphafi til dagsins í dag.
Á sýningunni er verk níu látinna ljósmyndara og fjögurra sem enn starfa. Sýningarstjórinn valdi ekki fólk sem fætt er eftir 1960 og einungis fólk sem gerði ljósmyndun að ævistarfi og starfaði því við fagið á um langt skeið. Verk ellefu karlmanna og tveggja kvenna eru á sýningunni, en fram á síðustu áratugi heyrði það til undantekninga að konur störfuðu markvisst við ljósmyndun lengur en í örfá ár. Ljósmyndararnir eru: Sigfús Eymundsson, Nicoline Waywadt, Magnús Ólafsson, Pétur Brynjólfsson, Sigríður Zoëga, Jón Kaldal, Ólafur Magnússon, Vigfús Sigurgeirsson, Ólafur K. Magnússon, Guðmundur Ingólfsson, Sigurgeir Sigurjónsson, Ragnar Axelsson og Páll Stefánsson.
Sigfús Eymundsson (18371911) kom heim til Íslands árið 1866 eftir að hafa lokið ljósmyndanámi í Noregi. Sagt hefur verið að heimkoma Sigfúsar marki þáttaskil. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem náði að gera ljósmyndun að lífsstarfi og var frábær ljósmyndari, einn sá allra merkilegasti sem hér hefur starfað, til þessa dags.
Íslensk ljósmyndun var orðin til, skrifar Einar Falur.
Hvað gerir ljósmynd góða? spyr hann. Eða áhrifamikla? Hvaða ljósmyndari er góður og hver síðri? Þar koma margir þættir inn. Fagurfræðilegt mat, sem er huglægt og persónulegt, skiptir líklega mestu þegar myndverk eru metin út frá formrænum eigindum sínum. Og vissulega þarf að setja sköpunarverkin í sögulegt samhengi. Hugsa um stefnur og strauma í tímanum, hugmyndafræði í listum yfirleitt og afstöðu listamannanna ljósmyndaranna. Það þarf einnig að skoða heildarverkið. Hvað liggur eftir ljósmyndarana? Náðu þeir, og jafnvel fyrir tilviljun, nokkrum góðum myndum, en voru annars bara þokkalegir iðnaðarmenn? Eða lögðu þeir mikinn metnað í sköpunina, stefndu að því að skapa einstæð myndverk? Það eru slíkir gripir sem við viljum sjá, myndir sem láta okkur staldra við og benda: svona var þetta og enginn gat sýnt það betur.
Í vali sínu á ljósmyndurum og myndum þeirra beinir Einar Falur einkum sjónum að manninum, mannlífi og hinu manngerða í umhverfinu. Hann segir að ekki sé þó hægt að líta fram hjá því að hér hefur ætíð búið fátt fólk í stóru og margbrotnu landi, og náttúru- og landslagsljósmyndun hefur skipað stærri sess hér en víðast hvar. Ljósmyndavélin gerir það sama á Íslandi og annarsstaðar. Þetta er aðeins skráningartæki. Það eru afstaða og sýn ljósmyndarans á heiminn sem skipta öllu máli.
Ljósmyndirnar á sýningunni í Listasafninu á Akureyri eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Morgunblaðsins og ljósmyndaranna. Sýningin er gerð í sérstöku samstarfi við bókaútgáfuna Sögur ehf. og Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin stendur til 18. október. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma: 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.
Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 00:08
DaLí Gallery á Akureyrarvöku

Á Akureyrarvöku verður líflegt á DaLí Gallery og á vinnustofu DaLí. Það er
opið gestum Akureyrarvöku kl. 14-17 og svo aftur um kvöldið frá kl.20-00.
Dagskrá Akureyrarvöku á DaLí:
Edda Þórey Kristfinnsdóttir og sýning hennar Vistaskipti. Síðustu forvöð
og lokadagur sýningarinnar.
Steinn Kristjánsson verður með málverkasýningu í litla galleríinu KOM INN
sem er litla rýmið á vinnustofu DaLí.
DaLíurnar (Dagrún og Lína) pakka inn saumavél á súrrealíska vísu og verður
heitt kakó í boði fyrir gesti gallerísins og sköpunarveggur þar sem má tjá
sig á listrænan hátt.
Allir velkomnir.
Dagrún Matthíasdóttir og Sigurlín M. Grétarsdóttir
s.8957173 og 8697872
DaLí Gallery
Brekkugata 9
Akureyri
www.daligallery.blogspot.com