14.5.2009 | 21:22
Ásdís Sif Gunnarsdóttir opnar sýningu í Kópaskersvita
Ykkur er hér með boðið á opnun sýningarinnar Brennið þið vitar! í Kópaskersvita nk. sunnudag 17. maí kl. 15.
Ásdís Sif Gunnarsdóttir er listamaður Kópaskersvita en Ásdís fæst við myndbanda og gjörningalist þar sem hún bregður sér í ólík hlutverk dulspárra vera. Með hjálp nýjustu tækni endurvekur hún fornar goðsagnir og ræður áhorfendum heilt, sem dæmi hefur hún nýtt sér veraldarvefinn til þess að miðla boðskap sínum persónulega til fólks. Frekari upplýsingar um Ásdísi má finna á heimasíðu hennar: www.asdissifgunnarsdottir.com
Sýningin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Menningarráðs Eyþings og Vitastígs á Norðausturlandi.
Sama dag hefur Ingunn St. Svavarsdóttir Yst opna sýninguna Verk í vinnslu í Fagurlistasmiðjunni Bragganum við Öxarfjörð. Opið kl.11-18
14.5.2009 | 09:26
Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson sýna á bókasafni Háskólans á Akureyri
Afhending hvatningarverðlauna CP-félagsins
Föstudaginn 15. maí klukkan 16:00 opna Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson (Kalli) sýninguna Himintjöld og dansandi línur á bókasafni Háskólans á Akureyri. Verkin á sýningunni eru unnin með akrýllitum á bómullargrisju. Við opnunina verða veitt hvatningarverðlaun CP-félagsins. Hugtakið CP (Cerebral Palsy) er notað yfir algengustu hreyfihömlun meðal einstaklinga.
Karl og Rósa Kristín hafa unnið saman að myndlist í mörg ár. Samstarfið var lengi vel samspil nemanda og kennara en hefur þróast markvisst yfir í samvinnu tveggja vina, félaga í listinni. Líta má á listir sem samskiptamáta; samtal listamannsins við áhorfandann, samspil listamannsins við efnið, en líka samtal eða samleik listamanna. Rósa Kristín og Karl hafa skapað verk saman á ýmsa vegu. Karl hefur málað efni byggt á eigin hugmyndum og Rósa unnið áfram með það á mismunandi vegu, oft sem uppistöðu í textílverkum sem byggja á sjónrænu samtali beggja. Að þessu sinni málaði Rósa efnin fyrst, en Karl tók við og málaði sínar dansandi línur. Innsetningin Himintjöld og dansandi línur er afrakstur þessa samtals eða samspils listamannanna.
Við sýningaropnunina verða veitt HVATNINGARVERÐLAUN CP félagsins á Íslandi en félagið hefur árlega afhent hvatningarverðlaun til þeirra sem eru góðar fyrirmyndir fyrir félagsmenn. Hvatningarverðlaunin í ár hljóta þau Brynhildur Þórarinsdóttir lektor og rithöfundur og listamannatvíeykið Rósa Kristín Júlíusdóttir lektor og Karl Guðmundsson. Þriðjudaginn 5. maí sl. opnaði Karl Guðmundsson sýninguna KALLI25 og þykir félaginu við hæfi þegar Karl og Rósa opna aðra sýninguna á tveimur vikum að hittast við opnunina og afhenda hvatningarverðlaunin í ár.
Dagskrá:
Karl Guðmundsson og Rósa Kristín Júlíusdóttir opna sýninguna Himintjöld og dansandi línur.
Ávarp: Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Ásdís Árnadóttir afhendir hvatningarverðlaunin fyrir hönd CP félagsins.
Brynhildur Þórarinsdóttir les kafla úr bók sinni Nonni og Selma; fjör í fríinu.
Hljómlist flytja Þórgnýr Inguson, Bjarni Helgason og Egill Logi Jónsson.
Léttar veitingar í boði CP félagsins.
14.5.2009 | 00:26
Sýningin "Viltu leika?" í GalleríBOXi
Viltu leika?
GalleríBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
opið 14:00 - 17:00 laugardaga og sunnudagaOpnar á laugardaginn 16. maí kl.15.00.
Nemendur Oddeyrarskóla og Brekkuskóla ásamt kennurum sínum unnu sérstaklega fyrir þessa sýningu. Er afrakstur þeirra vinnu til sýnis og er ætlað að vera einskonar leiðarvísir fyrir áframhaldandi vinnu.
Því þetta er bara byrjunin, þessari sýningu er ætlað að vaxa og breytast. Öllum er heimilt að koma með verk á sýninguna eða gera verk á staðnum. Sérlega er horft til þess að fullorðnir og börn vinni saman verk og skilji þau eftir. Einnig heimilt að vinna áfram þau verk sem eru á staðnum og halda áfram með þau. Þetta er lifandi sýning og hún gæti þróast í hvaða þá átt sem henni þóknaðist. En mikilvægast er, að myndlistin er sá samræðugrundvöllur sem allir mætast á.
Umsjónarmenn sýningarinnar eru; Brynhildur Kristinsdóttir, Joris Rademaker og Þórarinn Blöndal.
Sýningin stendur til 7. júní.